Hver er Karl?

Karl III. Bretakonungur hefur tekið við völdum.
Karl III. Bretakonungur hefur tekið við völdum. AFP

Karl III. Bretakonungur hefur þegar tekið við sem þjóðhöfðingi breska samveldisins. Karl hefur verið í þjálfun fyrir starfið allt sitt líf, en hann er í dag 73 ára gamall.

Móðir hans, Elísabet II. Bretadrottning féll frá í gær, 96 ára að aldri.

Spekingar eru sammála um að Karl verði ólíkur móður sinni í starfi en hann hefur talað fyrir því að nútímavæða krúnuna og hlutverk konungsfjölskyldunnar. Karl hefur unnið við hlið móður sinnar frá því hann var unglingur og ferðast með henni, og án hennar, um allan heim. Í reynd hefur enginn starfað undir titlinum prins af Wales jafn lengi og Karl. 

Fæddur árið 1948 

Karl Filippus Artúr Georg fæddist hinn 14. nóvember árið 1948 og var fyrsta barn foreldra sinna. Hann, og Anna systir hans, fæddust áður en móðir þeirra Elísabet II. var krýnd drottning. Karl var því aðeins 3 ára þegar hann varð fyrstur í erfðaröðinni að krúnunni.

Hann hlaut titilinn prins af Wales árið 1969 og hefur í gegnum árin bætt við sig nokkrum titlum. 

Karl útskrifaðist með tvöfalda BA-gráðu í fornleifafræði og mannfræði frá Cambridge-háskóla árið 1970. Eina önn fór hann í skipti nám í Wales þar sem hann lagði stund á velsku. Eftir útskrift þjónaði hann í breska flughernum og sjóhernum, frá 1971 til 1976. 

Mynd frá árinu 1949, tekin í Buckinghamhöll.
Mynd frá árinu 1949, tekin í Buckinghamhöll. AFP
Frá krýningarathöfn Elísabetar 2. júní árið 1953.
Frá krýningarathöfn Elísabetar 2. júní árið 1953. AFP

Kvæntist Díönu árið 1981 

Karl kvæntist lafði Díönu Spencer árið 1981 og tók hún þá titilinn Díana prinsessa af Wales. Saman eignuðust þau tvo syni, Vilhjálm og Harry.  

Þau skildu að borði og sæng síðla árs 1992 og skildu þau svo formlega árið 1996. Díana lést ári síðar, 1997. 

Anna prinsessa og Karl árið 1970.
Anna prinsessa og Karl árið 1970. AFP
Díana prinsessa, Harry Bretaprins, Vilhjálmur Bretaprins og Karl árið 1995.
Díana prinsessa, Harry Bretaprins, Vilhjálmur Bretaprins og Karl árið 1995. AFP

Karl kvæntist Kamillu Parker Bowles árið 2005 og tók hún þá hertogaynjutitil, ekki prinsessutitil líkt og Díana. Samband þeirra Karls og Kamillu var lengi vel gríðarlega umdeilt, þá sérstaklega vegna þess að breska þjóðin dýrkaði og dáði Díönu og einnig vegna frægra ummæla prinsessunnar um að þau hafi verið „þrjú í þessu hjónabandi“ og gaf þar til kynna að Karl hefði haldið við Kamillu á meðan hann var kvæntur Díönu. 

Karl og Kamilla hafa búið og starfaði í Clarence House undanfarin ár, en gert er ráð fyrir að þau flytji sig yfir í Buckinghamhöll nú þegar Karl er orðinn konungur.

Karl á alls fimm barnabörn. 

Karl kvæntist Kamillu árið 2005.
Karl kvæntist Kamillu árið 2005. AFP

Talað um umhverfismál frá 1968

Ástríða Karls hefur legið í umhverfismálum frá því að hann var ungur. Í ræðum sínum í gegnum árin hefur hann ítrekað tala um loftslagsbreytingar, fyrst árið 1968. Þá þótti það ekki eins vinsælt umræðuefni og í dag. 

Karl hefur tekið þátt í fjölda ráðstefna um umhverfismál og ræddi við Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, um ákvörðun hans að draga Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum í heimsókn hans til Bretlands árið 2019. 

Hann lagði einnig orð í belg á COP26 ráðstefnunni í Glasgow í nóvember á síðasta ári þar sem hann hvatti ríki heims til að leggja sitt af mörkum til umhverfismála. 

Karl hefur talað um umhverfismál frá 1968.
Karl hefur talað um umhverfismál frá 1968. AFP

Samanborið við móður sína hefur Karl verið óhræddur við að hafa skoðun og tjá sig um skoðanir sínar. Þó Karl segist vilja nútímavæða krúnuna þá hefur hann sagt að hann ætli að hætta að tjá sig um allt undir sólinni opinberlega þegar hann verður krýndur. 

„Hugmyndin, um að ég mun halda nákvæmlega sömu stefnu, ef ég þarf að taka við, er algjörlega fáránleg því kringumstæðurnar eru algjörlega ólíkar,“ sagði Karl í viðtali við BBC árið 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina