Svíar ganga til kosninga í dag

Svíar ganga til þingkosninga í dag og opnuðu kjörstaðir klukkan átta í morgun. Mjótt er á munum á milli hægri- og vinstriblokkarinnar og má því búast við spennandi kosningum. Kosið er til þings, sveitarstjórna og héraðsstjórna í dag. 

Vinstriblokkin mælist með 49,7-51,6% atkvæða en hægriblokkin með 47,6-49,4% atkvæða.

Möguleikarnir skýrir

Jafnaðarmannaflokkurinn er nú í minnihlutastjórn með stuðningi þriggja annarra flokka undir stjórn forsætisráðherrans Magdalenu Andersson. Vinstristjórn Magdalenu, ásamt Græningjum og Vinstriflokknum, væri mögulegt stjórnarmynstur til vinstri. 

Ríkisstjórn sem mynduð væri til hægri, undir stjórn Ulfs Kristerssonar, formanns Moderatarna, yrði að líkindum skipuð Moderatarna, Kristilegum demókrötum, Frjálslyndum og Miðflokknum.

Atkvæðin skiptast svona eins og sakir standa samkvæmt skoðanakönnunum:

Jafnaðarmenn –30,3%

Sænskir demókratar – 21,2%

Moderatarna –17,1%

Vinstriflokkurinn –7,8%

Miðflokkurinn – 7,1%

Kristilegir demókratar – 7,1%

Frjálslyndir – 5,2%

Aðrir eru með minna.

Sænskir demókratar úti í horni

Sænskir demókratar, sem hafa töluvert sótt í sig veðrið, hafa af sumum verið skilgreindir til hægri en Ulf Kristensson lýsti því yfir fyrir kosningarnar árið 2018 að hann myndi ekki eiga í samstarfi við flokkinn, sem á rætur sínar að rekja til nýnasistahreyfingarinnar. 

Jafnaðarmenn útiloka samstarf við flokkinn en Kristensson gerir það ekki þótt hann vilji ekki að Sænskir demókratar verði við stjórnvölinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert