1,4 milljarðar fyrir Jordan-treyju

Bolurinn til sýnis fyrir uppboðið í dag þar sem hann …
Bolurinn til sýnis fyrir uppboðið í dag þar sem hann var sleginn ónefndum hæstbjóðanda á tíu milljónir dala. AFP/Angela Weiss

Hlýrabolur körfuknattleiksgoðsagnarinnar Michaels Jordans, kirfilega merktur tölunni 23, seldist fyrir 10,1 milljón Bandaríkjadala, jafnvirði 1,4 milljarða íslenskra króna, á uppboði hjá Sotheby‘s í New York í dag.

Bolnum klæddist Jordan í fyrsta leik úrslitahrinu NBA-körfuknattleiksdeildarinnar árið 1998, þegar hann leiddi lið sit, Chicago Bulls, til sigurs í síðasta sinn og er upphæðin sú hæsta sem greidd hefur verið á uppboði fyrir nokkurn íþróttagrip sem notaður hefur verið í keppni. Fyrra met átti bolur Diegos Maradona heitins sem í maí seldist fyrir 9,28 milljónir dala.

Var söluupphæð flíkur Jordans tvöfalt mat Sotheby‘s og buðu uppboðsgestir 20 sinnum áður en þriðja hamarshöggið glumdi. Er þetta annar bolur stjörnunnar, sem nú er 59 ára, sem selst á uppboði og kannast margir við sölugripinn úr heimildaþáttaröðinni The Last Dance sem gekk á Netflix á dögunum.

The Guardian

mbl.is