Skelfileg skipulagning orðið Rússum að falli

Innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar.
Innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar. AFP

Þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst hinn 24. febrúar síðastliðinn, áttu margir von á því að aðgerðum yrði lokið á tiltölulega skömmum tíma. Reyndin hefur orðið önnur, þar sem hvert bakslagið á fætur öðru hefur komið upp á fyrir Rússa, en ýmislegt bendir til að mikið af þeim skyssum sem þeir hafa gert í innrásinni megi skrifa upp á skort á upplýsingagjöf herforingja gagnvart óbreyttum hermönnum. 

Þannig hafa ýmis teikn verið á lofti um að margir af óbreyttum hermönnum Rússahers hafi enga skýra hugmynd um markmið innrásarinnar, og töldu margir þeirra í upphafi sem að þeir væru bara að sinna almennum heræfingum. 

AFP-fréttastofan safnaði saman áliti nokkurra sérfræðinga á sviði hernaðaraðgerða, en þeir segja margir hverjir að upplýsingaflæði innan rússneska hersins sé verulega á skjön.

„Rússneski herinn er lygaher,“ sagði hershöfðinginn Thierry Burkhard, yfirmaður franska hersins, í samtali við AFP í maí.

„Fólk laug þegar það sagði að úkraínski herinn myndi ekki veita mótspyrnu, að rússneskar hersveitir væru tilbúnar í stríð og að foringjar þeirra vissu hvernig ætti að gefa skipanir,“ bætti hann við.

Sex mánuðum eftir innrásina hafa sérfræðingar á Vesturlöndum metið stöðuna sem svo að innan Rússahers þrífist bæði lygar og spilling, og að margir þeirra sem séu í nánum samskiptum við innsta hring Pútíns vilji ólmir segja meðlimum hans bara það sem þeir vilji heyra.

Vill enginn segja sannleikann

Alexander Grinberg, talsmaður öryggis- og herkænskustofnunarinnar í Jerúsalem og fyrrum meðlimur í ísraelsku leyniþjónustunni, segir að háttsettir foringjar innan rússneska hersins hugsi eingöngu um sjálfa sig, medalíurnar og ferilinn á meðan hermennirnir hugsi bara um að lifa af.

„Pútín heimtar óraunhæfar niðurstöður og enginn segir honum sannleikann, ekki einu sinni í einrúmi,“ segir Grinberg og bætir við að vissulega geti hugdjarfir herforingjar reynt að hugsa út fyrir rammann, en að þeir væru þá undantekningin og breyttu ekki miklu á vígvellinum, nema þá að draga eitthvað úr skaðanum og bjarga nokkrum mannslífum.

Ekki er ljóst hve margir rússneskir hermenn hafa fallið síðan stríðið hófst. Yfirvöld í Úkraínu segja að 50 þúsund hafi verið drepnir, en heimildir á Vesturlöndum herma flestar að sú tala sé líklega of há, þó að rétta talan sé vissulega umtalsverð.

Óraunhæfar myndir af stríðinu

Nýleg gagnsókn Úkraínuhers kom rússneskum hersveitum mjög að óvörum og var þá mikið um liðhlaup, lélegt baráttuþrek og að hermenn Rússa fylgdu ekki skipunum.

„Her og styrkleikar hans samanstanda af getu hans og hæfileikum. Rússneski herinn er ekki með góða innviði hvað við kemur liðssöfnun, þjálfun og nýsköpun og hefur því dalað verulega hjá þeim,“ segir franski hernaðarsagnfræðingurinn Michel Goya.

Chris Owen, sem einnig er hernaðarsagnfræðingur, segir að liðsforingjar rússneska hersins ljúgi oft að yfirmönnum sínum þegar þeir eru að lýsa stöðunni innan herdeilda sinna.

Í því samhengi bendir hann á skilaboð sem Úkraína hleraði af rússneskum hermönnum þegar þeir voru að lýsa fölskum sigrum á vígvöllum, en Owen segir að fleiri árásir séu þá gerðar í kjölfarið sem byggðar eru á fölskum upplýsingum.

„Þegar skýrslur skila sér loksins til yfirvalda, rússneska varnarmálaráðuneytisins og Pútíns sjálfs, er mögulegt að þær séu svo bjagaðar og ónákvæmar að fólkið sem stýrir stríðinu endar á því að vera með mjög óraunhæfa mynd af því sem er að eiga sér stað á vígvellinum.“

mbl.is