Kalla eftir stríðsglæpadómstól vegna fjöldagrafanna

Fjöldagrafirnar í Isíum.
Fjöldagrafirnar í Isíum. AFP

Tékkar, sem fara nú með forsætið í ráðherraráði Evrópusambandsins, hvöttu í dag til þess að stofnaður yrði alþjóðlegur dómstóll fyrir stríðsglæpi eftir að nýjar fjöldagrafir fundust í Úkraínu.

„Á 21. öldinni eru slíkar árásir gegn almennum borgurum óhugsandi og viðurstyggilegar,“ sagði Jan Lipavsky, utanríkisráðherra Tékklands.

„Við megum ekki líta framhjá þessu. Við viljum að stríðsglæpamönnum verði refsað,“ bætti hann við í færslu á Twitter.

„Ég hvet til þess að það verði sem fyrst stofnaður sérstakur alþjóðlegur dómstóll“.

Hvatningin kemur í kjölfar þess að úkraínsk yfirvöld fundu um 450 grafir fyrir utan borgina Isíum, sem áður var hernumin af Rússlandi, þar sem flest líkin sem grafin voru upp sýndu merki um pyntingar.

99% sýndu merki um ofbeldisfullan dauða

„Meðal líkanna sem voru grafin upp í dag sýndu 99 prósent merki um ofbeldisfullan dauða,“ sagði Oleg Sínegubov, ríkisstjóri í austurhluta Karkív-héraðsins, á samfélagsmiðlum.

„Það eru nokkur lík með hendur bundnar fyrir aftan bak og einn maður er grafinn með reipi um hálsinn,“ bætti hann við.

„Rússland skilur aðeins eftir dauða og þjáningu. Morðingja," sagði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu. Sumar leifarnar sem grafnar voru upp voru meðal annars börn og fólk sem líklega var pyntað áður en það dóu, bætti hann við.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að grafirnar gæfu líklega fleiri vísbendingar um að Rússar væru að fremja stríðsglæpi í nágrannaríki sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina