Súrrealískt að sjá fjöldagröfina

„Þegar ég kem þá var verið að grafa upp kross …
„Þegar ég kem þá var verið að grafa upp kross númer 160 af 440,“ segir Óskar. mbl.is/Óskar Hallgrímsson

„Það var bara grafin hola og fólki var kastað ofan í. Það var ekkert verið að setja líkin í kassa eða líkkistu,“ segir ljósmyndarinn Óskar Hallgrímsson um fjöldagröfina við borgina Isíum í Úkraínu.

Óskar ferðaðist til Isíum í dag með hópi blaðamanna. Á leiðinni þangað mátti sjá ummerki stríðsátaka, sum eldri en önnur, þar sem gróður er tekinn að vaxa yfir skriðdrekaför sem Óskar telur vera frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu.

Að hans sögn beið hópsins ófögur sjón þegar þeir voru komnir til Isíum.

„Um leið og við komum inn fyrir borgarmörkin þá sjáum við að ekkert er óskemmt. Það er búið að sprengja allt í tætlur og meirihlutinn af því er frá því að Rússar tóku yfir borgina í mars. Rússar létu rigna yfir með stórskotaliði og í kjölfarið réðust þarna inn hersveitir,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Borgarbúar voru í senn glaðir og tortryggnir er blaðamenn gerðu …
Borgarbúar voru í senn glaðir og tortryggnir er blaðamenn gerðu vart við sig í Isíum í dag að sögn Óskars. mbl.is/Óskar Hallgrímsson

Færibandavinna við fjöldagrafirnar

Óskar gekk um rústir Isíum í dag og var farið með hann ásamt blaðamönnum að lögreglustöð þar sem óbreyttir borgarbúar sættu pyntingum af hálfu Rússa.

Eftir að hafa skoðað borgina var förinni haldið að skóglendi í nágrenni við borgina. Þar kynntist Óskar af eigin raun hryllingi stríðsins í Isíum og lýsir hann aðgerðum yfirvalda við fjöldagrafirnar sem færibandavinnu.

„Þegar ég kem þá var verið að grafa upp kross númer 160 af 440 og þeir eru búnir að vera að grafa stanslaust í þrjá daga. Þetta var eins og færiband af fólki, það var endalaust verið að ganga með líkpoka framhjá mér. Og samt var þetta númer 160,“ segir hann.

„En þetta tekur svakalegan tíma, að grafa upp einhvern. Svo er skoðun, eins konar grunnkrufning. Svo eru líkin sett í líkpoka og þeim er raðað fyrir utan tjald.“

Menn sitja þungt hugsi við fjöldagrafirnar.
Menn sitja þungt hugsi við fjöldagrafirnar. mbl.is/Óskar Hallgrímsson

Grafinn í fósturstellingu

Lyktin var yfirþyrmandi við fjöldagrafirnar. Óskar segir lyktina sérkennilega og að þegar hann verði hennar áskynja fái hann á tilfinninguna að hann verði að forða sér frá henni.

„Ég finn hana ennþá hér, uppi á hótelherbergi,“ segir hann í símann.

„Hún er örugglega ekki í fötunum mínum heldur liggur hún einhvern veginn í nefinu á mér. Þetta eru náttúrlega sex mánaða gömul lík sem eru búin að liggja í jörðu og fá að brotna niður.“

Upplifunin við fjöldagrafirnar var óraunveruleg að sögn Óskars.

„Þetta er inni í miðjum skógi, þar sem það eru tré allt um kring. Sólstafir koma þarna mitt á milli trjánna og þetta er allt saman svakalega súrrealískt.“

Þá segir hann það greinilegt að mikið hafi legið á að grafa líkin.

„Ég sá eina manneskju sem var grafin upp og hún var í fósturstellingu. Það hefur greinilega legið svakalega á að grafa þessa manneskju. Fólk var líka bara fullklætt, en af þessum 160 hafa fundist tvö börn.“

Óskar segir lyktina hafa verið yfirþyrmandi.
Óskar segir lyktina hafa verið yfirþyrmandi. mbl.is/Óskar Hallgrímsson

Erfið ferð

Ekki er vitað um tölu látinna í Isíum. Að sögn Óskars er fjöldi manns grafinn undir rústum borgarinnar. Þá hefur önnur fjöldagröf fundist á öðrum stað við borgina.

„Þetta er svakalegur fjöldi í 50 þúsund manna samfélagi.“

Aðspurður segir hann að dagurinn í dag hafi verið áhrifamikill en að hann sé þó orðinn betur í stakk búinn til að takast á við daga sem þessa.

„Þetta var erfið ferð að fara.“

mbl.is