Mesta stýrivaxtahækkun síðan 1993

Stýrivextir hækkuðu um 1%.
Stýrivextir hækkuðu um 1%.

Sænski seðlabankinn tilkynnti í dag um mikla vaxtahækkun til að berjast gegn hæstu verðbólgu í áratugi. Búast má við frekari hækkunum hjá seðlabönkum Bandaríkjanna og Bretlands í vikunni.

Stýrivextir hækkuðu um 1% í Svíþjóð en það er mesta hækkun í einu skrefi síðan árið 1993. Hækkunin kom sérfræðingum á óvart en þeir höfðu búist við 0,75% hækkun. Hækkuðu vextirnir því úr 0,75% í 1,75%.

„Verðbólga er of há,“ sagði sænski seðlabankinn í yfirlýsingu og bætti við að hún væri að grafa undan kaupmætti heimilanna og gera þeim og fyrirtækjum erfiðara fyrir að skipuleggja fjármál sín.

Þá spáir bankinn því að hann muni halda áfram að hækka vexti á næstu sex mánuðum.

Verðbólgan ekki meiri síðan 1991

„Verðbólga hefur aukist hratt og er mikil bæði í Svíþjóð og erlendis,“ segir í yfirlýsingunni en verðbólgan í Svíþjóð fór í 9% í ágúst sem er hæsta verðbólga síðan 1991.

Seðlabankinn býst nú við því að hagkerfið dragist saman um 0,7% á næsta ári í Svíþjóð en áður hafði hann spáð hagvexti. Hann aftur á móti hækkaði hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár í 2,7%.

Búist er við því að bandaríski seðlabankinn muni gefa út þriðju 0,75% vaxtahækkunina í röð á morgun og að enski seðlabankinn hækki lántökukostnað á fimmtudag.

mbl.is