Pútín „blygðunarlaust“ brotið gegn sáttmála SÞ

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ávítti Vladimír Pútín harkalega á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna aðeins örfáum klukkustundum eftir að Pútin tilkynnti um herkvaðningu í Rússlandi.

Þá sagði Biden rússneska forsetann hafa „blygðunarlaust“ brotið gegn sáttmála Sameinuðu Þjóðanna þegar hann réðst inn í nágrannaríkið Úkraínu.

„Rússar hafa blygðunarlaust brotið gegn meginreglum sáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Biden þegar hann ávarpaði árlega þingið í New York.

Rússneskar hersveitir hafa ráðist á úkraínska skóla, járnbrautarstöðvar og sjúkrahús, sem hluti af markmiði Moskvu um að „útrýma tilverurétti Úkraínu sem ríki,“ sagði Biden.

Ekki hægt að vinna kjarnorkustríð

„Við erum að sjá óhugnanlega þróun,“ sagði Biden og átti þá við hótanir Pútin um að grípa til kjarnorkuvopna sem hann sagði óábyrgar.

„Það er ekki hægt að vinna kjarnorkustríð og það má aldrei grípa til þess,“ sagði Biden.

Aftur á móti eru „Bandaríkin reiðubúin til að grípa til mikilvægra vopnaeftirlitsaðgerða“, sagði hann.

Leitast ekki eftir átökum

Biden beindi þá orðum sínum að Kína en var töluvert mildari í orðavali og sagði að þótt Bandaríkinu muni ekki vera ófeimin við að kynna sýn sína um frjálsan opinn, öruggan og farsælan heim þá myndu þau ekki neyða lönd til að velja hlið.

„Við leitumst ekki eftir átökum, við leitumst ekki eftir Kalda stríðinu,“ sagði hann.

Biden ávarpar allsherjarþingið í dag.
Biden ávarpar allsherjarþingið í dag. AFP

Standa með írönskum konum

Þá sneri forsetinn sér einnig að Íran og sagði Bandaríkjamenn „standa með hugrökku konunum í Íran“.

Víða hefur verið mótmælt þar í landi í kjólfar þess að hin 22 ára Mahsa Amini lét lífið í haldi lögreglu en hún hafði verið handtekin fyrir að klæðast hijab-slæðu á „óviðeigandi“ hátt.

„Í dag stöndum við með hugrökkum borgurum og hugrökkum konum Írans sem mótmæla nú til að tryggja grundvallarréttindi sín,“ sagði Biden.

Frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert