Sýnir fram á örvæntingu Pútíns

Vladimír Pútin við ræðuhöld í Kreml í gærkvöldi.
Vladimír Pútin við ræðuhöld í Kreml í gærkvöldi. AFP

Herkvaðning Vladimírs Pútíns, sem tekur gildi í dag, auk atkvæðagreiðslu sem efnt hefur verið til á hernumdum héröðum í Úkraínu, sýnir fram á örvæntingu hans og stjórnvalda í Kreml gagnvart stríðsrekstrinum í Úkraínu. 

Þetta segir Peter Stano, upplýsingafulltrúi Evrópusambandsins. 

„Þetta er einungis enn ein sönnun þess að Pútín hefur ekki áhuga á friði, að hann vilji stigmögnun þessa stríðs sem hann efndi til,“ sagði Stano. 

„Þetta er einnig enn eitt merki örvæntingu hans, um hve illa innrás hans gengur í Úkraínu.“

Kínverjar kalla eftir vopnahléi

Wang Wenbin, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, kallaði eftir vopnahléi í gegnum samtal og ráðgjöf eftir að fréttir bárust af yfirlýsingum Pútíns um herkvaðningu. Kínverjar eiga í nánu stjórnmálasamstarfi við Rússland. 

„Við köllum eftir að hlutaðeigandi aðilar efni til vopnahlés í gegnum samtal og ráðgjöf og finni lausn sem tekur til öryggismála allra aðila eins fljótt og auðið er,“ sagði Wenbin á blaðamannafundi í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert