Rak aðstoðarvarnamálaráðherra vegna skorts

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP/Mikhaíl Klímentév

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur rekið herforingja sem fer með birgðamál og flutning birgða vegna slæms gengis í Úkraínu.

BBC greinir frá. 

Herforinginn Dimitrí Búlgakov, einn aðstoðarvarnamálaráðherra Rússlands, var leystur frá störfum í dag vegna slæms ástand og gengis í birgðamálum á vígstöðvunum í Úkraínu, bæði hvað vopn varðar en einnig mat og aðrar vistir. 

Búlgakov, sem er 67 ára, var samkvæmt yfirlýsingu ráðuneytisins á Telegram færður til í starfi. 

Við starfi hans tekur hershöfðinginn Mikhaíl Misintsev, sem fór fyrir grimmilegu umsátri Rússa um Maríupol. 

Búlgakov hefur séð um birgðir og vistamál rússneska hersins frá árinu 2008 og var ábyrgur fyrir vistum þegar herinn var sendur til Sýrlands árið 2015. 

Sérfræðingar segja hann hafa verið settan til hliðar vegna mikillar óánægju með störf hans eftir innrásina í Úkraínu og að margir kenni honum um vont gengi hersins.

Undanfarin misseri hafa stjórnvöld í Kreml þurft að snúa sér til Norður-Kóreu og Íran fyrir skotvopn og dróna. 

Brottrekstur Búlgakovs kemur í kjölfar þess að myndefni fór í dreifingu á samfélagsmiðlum af nýjum herliðum með sundurryðgaðar byssur. mbl.is