„Sögulegur og öfgafullur“ fellibylur gengur yfir Kanada

Fíóna gekk á land á austurströnd Kanada.
Fíóna gekk á land á austurströnd Kanada.

Hundruð þúsunda íbúa í austurhluta Kanada eru nú án rafmagns vegna fellibylsins Fíónu sem gengur yfir svæðið.

Vindhraðinn hefur verið um 148 kílómetrar á klukkustund eða um 40 metrar á sekúndu. Þá hefur fylgt mikil úrkoma í Nova Scotia, Edward Island og New Brunswick, samkvæmt frétt BBC.

Kanadíska fellibylja stofnunin hefur varað við því að yfirferð Fíónu yfir landið verði „sögulegur og öfgafullur atburður“. Búast megi við rafmagnsleysi og flóðum.

Að minnsta kosti átta létust þegar Fíóna fór yfir eyjarnar í karabíska hafið í vikunni.

„Þetta verður mjög slæmt,“ sagði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, á föstudag. „Við hvetjum alla til að gæta að öryggi, hlusta á og fara eftir leiðbeiningum yfirvalda og þrauka næsta sólarhringinn,“ sagði forsætisráðherrann.

Búið er að koma á fót neyðarskýlum í Halifax og Cape Breton sem fólk getur leitað í á meðan veðrið gengur yfir.

Kraftmiklir fellbylir eru ekki algengir í Kanada þar sem þeir missa yfirleitt kraftinn þegar þeir koma í kaldari sjó við landið. Nú er loftþrýstingur á svæðinu hins vegar sögulega lágur sem gerir það að verkum krafturinn verður meiri.

Síðast gekk kraftmikill fellibylur yfir Nova Scotia árið 2003, en þá létust tveir og mikið eignatjón varð. Búist er við að Fíóna verði enn kraftmeiri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert