Hvetur rússneska hermenn til að gerast liðhlaupar

Selenskí segir betra að gefast upp en að vera drepin.
Selenskí segir betra að gefast upp en að vera drepin. AFP/ Dimitar Dilkoff

Komið verður fram við rússneska hermenn sem gefast upp fyrir Úkraínumönnum á faglegan hátt, að sögn Volodimírs Selenskís forseta Úkraínu. Þetta kom fram í ávarpi hans í nótt.

Selenskí flutti ávarpið á rússnesku, sem er hans móðurmál, og reyndi að höfða til rússneskra hermanna sem hann hvatti til að gerast liðhlaupar og gefa sig fram við Úkraínumenn, að því er fram kemur í frétt BBC.

Aðeins nokkrum klukkutímum áður hafði Vladimír Pútín forseti Rússlands skrifað undir lagabreytingu sem þyngir refsingu yfir rússneskum hermönnum sem annaðhvort gefast upp eða óhlýðnast skipunum. Þeir geta nú átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Yfir 1.700 handtekin í Rússlandi

Á miðvikudag var tilkynnt um herkvaðningu í Rússlandi, en markmiðið er að virkja 300 þúsund varaliða. Fjölmargir ungir karlmenn hafa reynt að flýja land eftir að tilkynnt var um herkvaðninguna og mótmælt hefur verið á götum úti.

Að sögn rússnesku mannréttindasamtakanna OVD-info voru um 700 handtekin á laugardag og fyrr í vikunni voru yfir 1.000 handtekin vegna mótmælanna. Samkvæmt rússneskum lögum eru mótmæli án leyfis yfirvalda bönnuð.

Í ávarpi sínu sagði Selenskí betra fyrir rússneska hermenn að gefast upp fyrir Úkraínumönnum en að hætta á að réttað verði yfir þeim sem stríðsglæpamönnum eftir að stríðinu lýkur.

Farið yrði með liðhlaupa samkvæmt viðteknum venjum alþjóðasamfélagsins. Þeir yrðu ekki sendir til baka til Rússlands ef þeir óttuðust það.

„Það er betra að gefast upp fyrir Úkraínumönnum en að vera drepinn með með vopnum okkar,“ sagði Selenskí.

mbl.is