Berlusconi snýr aftur eftir útskúfun

Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi. AFP

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, vann sér inn sæti í öldungadeildinni með sigri hægriflokkanna Bræðralags Ítalíu og Forza Italia í kosningum í gær.

Giorgia Meloni, leiðtogi fyrrnefnda flokksins, verður að öllum líkindum fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra Ítalíu. 

Hinn 85 ára gamli Berlusconi, sem er á lista yfir ríkustu menn heims, snýr þá aftur á svið stjórnmála níu árum eftir að hann var útskúfaður fyrir skattsvik og bolað út af þingi.

Berlusconi, sem hefur þrisvar sinnum verið forsætisráðherra, var skipað að vinna samfélagsþjónustu og bannað að sitja í embætti. Bannið rann út fyrir fjórum árum.

Berlusconi bjó til tiktokaðgang til að afla sér vinsælda fyrir kosningarnar og var kominn með 600 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum á aðeins einum mánuði þar sem honum tókst að hrífa unga kjósendur með gríni og háði.

Í einu myndbandi sem skartar yfir milljón áhorfum montar hann sig af því að hafa drepið risavaxna flugu og í öðru montar hann sig af því að stela kærustum af ungum mönnum.

Föðurímynd Meloni

Berlusconi, sem steig sitt fyrsta skref í stjórnmálum fyrir 28 árum, hefur sagt að hann ætli sér að ganga verðandi forsætisráðherra Meloni og Matteo Salvini, félaga hennar í ríkisstjórn hægriflokka, í föðurstað.

„Ég ætla mér að reyna að vera leikstjórnandi í ríkisstjórninni,“ sagði Berlusconi eftir að hafa greitt atkvæði í kosningunum.

Berlusconi hefur lengi verið ásakaður um að hafa greitt ungum konum fyrir að þegja yfir erótískum partíum sem hann hefur haldið.

Árið 2013 var hann dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að greiða 17 ára stúlku fyrir vændi. Berlusconi áfrýjaði niðurstöðunni og málinu var vísað frá ári síðar.

Evrópski þjóðarflokkurinn hefur óskað Forza Italia, flokki Berlusconi, til hamingju með að hafa tryggt sér átta prósent atkvæða í kosningum. 

„Við erum sannfærð um að Forza Italia muni leiða næstu ríkisstjórn á braut sem þjónar bestu hagsmunum ítölsku þjóðarinnar og verði hluti af sterkri og stöðugri Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert