Pútín fordæmir „hryðjuverkaárás“ í skóla

Sjáskot úr myndefni frá rússneskri rannsóknarnefnd. Rannsakendur standa við lík …
Sjáskot úr myndefni frá rússneskri rannsóknarnefnd. Rannsakendur standa við lík byssumannsins. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur lýst skotárásinni sem var gerð í skóla í borginni Izhevsk í miðhluta Rússlands í morgun sem grimmilegri hryðjuverkaárás. Að minnsta kosti 13 eru látnir, þar á meðal sjö börn.

„Pútín forseti er afar sorgmæddur vegna fullorðna fólksins og barnanna sem létust í skóla þar sem maður, sem virðist tengjast nýnasistahópi, framdi árás,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar.

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AFP/Gavriil Grigorov/Sputnik

„Forsetinn óskar þeim sem særðust skjóts bata vegna þessarar grimmilegu hryðjuverkaárásar,“ bætti hann við.

Árásin er sú nýjasta í röð skólaskotárása sem hafa skekið Rússland að undanförnu. Hún var framin á sama tíma og mikil ólga er í landinu vegna tilrauna til að flytja úr landinu tugi þúsunda manna til að berjast í Úkraínu.

21 særður

„Þrettán manns, sex fullorðnir og sjö undir lögaldri, eru látin af völdum þessa glæps,“ sagði rússnesk rannsóknarnefnd í yfirlýsingu og bætti við að fjórtán börn og sjö fullorðnir til viðbótar hefðu særst.

Yfirvöld höfðu áður greint frá því að níu hefðu látist en tilgreindu ekki hvort grunaði byssumaðurinn væri á meðal þeirra.

Lík byssumannsins í skólanum No88 í Izhevsk.
Lík byssumannsins í skólanum No88 í Izhevsk. AFP

Rannsakendur segja að tveir öryggisverðir og tveir kennarar hafi verið á meðal fórnarlambanna og bættu við að árásarmaðurinn, sem var fyrrverandi nemandi við skólann, „hefði framið sjálfsvíg“. 

Að sögn rússneska heilbrigðisráðuneytisins eru 14 hópar viðbragðsaðila á staðnum til að koma þeim særðu til aðstoðar.

Um 630 þúsund manns búa í borginni Izhevsk. Hún er höfuðborg héraðsins Udmurt sem er um 1.000 km austur af Moskvu.

Árásin var framin aðeins nokkrum klukkustundum eftir að maður hóf skothríð og særði þó nokkra í skráningarsetri fyrir hermenn í Síberíu vegna innrásarinnar í Úkraínu. 

Síðasta skólaárásin í apríl

Síðasta mannskæða skotárásin í rússneskum skóla var framin á leikskóla í héraðinu Ulyanovsk í apríl síðastliðnum sem varð tveimur börnum og einum leikskólakennara að bana.

Árásarmaðurinn, sem var lýst sem „andlega veikum“, fannst síðar látinn og sögðu yfirvöld að hann hefði framið sjálfsvíg.

Skotárásir í skólum og háskólum í Rússlandi voru sjaldgæfar allt til síðasta árs þegar tvær mannskæðar árásir voru gerðar í borgunum Kazan og Perm. Byssulöggjöf í landinu var í framhaldinu hert.

mbl.is

Bloggað um fréttina