Truss sætir gagnrýni eftir fall pundsins

Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands.
Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Bresk stjórnvöld og Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, hafa mátt sæta harðri gagnrýni eftir að breska pundið hríðféll gagnvart bandaríkjadal í dag.

Fjármálaráðuneytið kynnti nýverið áform um gríðarlegar skattalækkanir og 45 milljarða punda aðgerðapakka til að sporna við hækkandi orkuverði.

Rachel Reeves, talsmaður fjármáladeildar Verkamannaflokksins í Bretlandi, hefur talað um neyðarástand og líkt Truss og fjármálaráðherranum Kwasi Kwarteng við „tvo örvæntingarfulla fjárhættuspilara í spilavíti að eltast við taphrinu“.

„Skilaboðin frá fjármálamörkuðum á föstudag voru skýr og þau skilaboð eru enn skýrari í dag: Sterlingspundið er fallið. Það þýðir að verð mun almennt hækka, þar á meðal verð á innflutningsvörum,“ sagði Reeves og bætti við að lánakostnaður ríkisstjórnarinnar færi hækkandi.

„Það þýðir að skattgreiðendur neyðast til að borga vexti af skuldum ríkissjóðs. Þá mun lánakostnaður vinnandi fólks hækka og sömuleiðis fasteignamatið.“

Truss skipaði Kwarteng í embætti fjármálaráðherra fyrr í þessum mánuði eftir að hún var skipuð forsætisráðherra.

Á föstudag kynnti Kwarteng áform um margra milljarða punda aðgerðarpakka til stuðnings við heimili og fyrirtæki, sem og miklar skattalækkanir.

Gengi pundsins lækkaði niður í 1,035 dali í dag en náði síðar jafnvægi í 1,078 dölum stuttu fyrir hádegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert