Ian gengur yfir Flórída – „Maður gæti tekist á loft og fokið“

Tréð fyrir utan húsið sem Brynja dvelur í hefur klofnað …
Tréð fyrir utan húsið sem Brynja dvelur í hefur klofnað í tvennt vegna vindsins sem fylgir fellibylnum Ian. Tréð er 50 ára að sögn eigenda hússins Ljósmynd/Aðsend

„Ég fór aðeins hérna út fyrir og maður upplifði eins og maður gæti tekist á loft og fokið. Þetta er bara ofsaveður.“

Þetta segir Brynja Dröfn Ísfjörð Ingadóttir en hún er í fríi ásamt konunni sinni í borginni Sarasota í Flórída-ríki í Bandaríkjunum þar sem að fellibylurinn Ian gengur nú yfir. Nú þegar er rafmagnslaust á meira en milljón heimilum í Flórída að sökum þessa.

Rafmagnslaust á heimilinu

Rafmagnslaust varð á húsinu sem að Brynja dvelur í fyrir um klukkutíma síðan og segir hún að vindhviðurnar nái um 60 til 70 metrum á sekúndu fyrir utan húsið þessa stundina.

„Við tókum bara út spilin og erum með kertaljós og vasaljósin,“ sagði hún spurð hvað sé hægt að gera sér til afþreyingar á meðan fellibylnum lægir.

Óvíst er hvenær rafmagnið verður komið aftur í borginni en Brynja bendir á að síðast þegar svona fellibylur gekk yfir tók það viku að koma rafmagninu á. 

Mjög slæmt ástand

Aðspurð segist hún telja ástandið mjög slæmt í nágrenni við hana þessa stundina og segir hún allt vera á floti á mörgum stöðum í Flórída. Hún telur sig þó vera örugga og þakkar burðugu húsinu fyrir að standa vindinn af sér.

Hún segir að út frá því sem hún hefur séð í fréttum hafi margir þurft að flýja heimilin sín og sækja skýli í athvörfum sem er búið að setja upp víðs vegar í skólum í borginni. Hún bendir á að mikið er af vötnum í Flórída og því mikið flóð komið upp í ýmsum hverfum.

Neglt fyrir rúðurnar á móti

Spurð hvernig aðdragandinn og undirbúningurinn er fyrir svona náttúruhamfarir segir Brynja að þeim hafi borist tilkynning um að byrgja sig upp með nóg af mat og vatni til endast út fellibylinn. 

„Fólk notar baðkerin og fyllir þau af vatni. Síðan þarf að fjarlægja alla lausamuni og fólk reynir að koma bílunum sínum í öruggt skjól. Fólk er að negla fyrir rúður og það er neglt fyrir rúður hérna í húsinu á móti.“

mbl.is