Bandarísk hjón sökuð um að njósna fyrir Rússa

Henry og Gabrielian eru sakaðar um að hafa ætlað að …
Henry og Gabrielian eru sakaðar um að hafa ætlað að deila trúnaðarupplýsingum. AFP

Læknir bandaríska hersins og eiginkona hennar, sem einnig er læknir, hafa verið ákærðar fyrir áform um að leka upplýsingum til rússneskra stjórnvalda.

Jamie Lee Henry og Anna Gabrielian eru sakaðar um að hafa ætlað að deila trúnaðarupplýsingum um sjúklinga á hersjúkrahúsi, að því er BBC greinir frá.

Í ákærunni kemur fram að Henry hafi ætlað að nota heimild sína til að fá aðgang að persónulegum sjúkraskrám frá sjúkrahúsinu í Fort Bragg, herstöðinni þar sem hún starfaði.

Þær hafi ætlað að afhenda sjúkraskrárnar til að sanna vilja þeirra til að aðstoða Rússa. Rússnesk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið.

Íhugaði að ganga í rússneska herinn

Gabrielian er ákærð fyrir að hafa ætlað að deila upplýsingum frá sínum vinnustað, Johns Hopkins sjúkrahúsinu í Baltimore. Hún er sögð hafa boðist til þess að aðstoða rússneska sendiráðið í Washington, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Um miðjan ágúst leitaði til hennar einstaklingur sem sagðist vinna fyrir rússneska sendiráðið, en var í raun fulltrúi alríkislögreglunnar FBI. Sagðist Gabrielian vera tilbúin til að veita Rússum alla aðstoð, jafnvel þótt hún yrði rekin eða vistuð í fangelsi. Þá sagðist hún vera að íhuga að ganga í rússneska herinn.

Hún er einnig sökuð um að hafa sagt FBI-fulltrúanum að eiginkona hennar gæti miðlað upplýsingum um hvernig bandaríski herinn kemur á fót hersjúkrahúsum við stríðsaðstæður og upplýsingum um þjálfun sem Bandaríkin veittu úkraínska hernum.

Verði þær fundnar sekar eiga þær yfir höfði sér að hámarki fimm ára fangelsi fyrir samsærið og tíu ár fyrir hverja ákæru um að birta heilsufarsupplýsingar.

mbl.is