Ian hefur lagt borgir og bæi í rúst

Fellibylurinn hefur skilið eftir sig mikla eyðileggingu.
Fellibylurinn hefur skilið eftir sig mikla eyðileggingu. AFP/Giorgio Viera

Fellibylurinn Ian hefur nánast lagt borgina Fort Myers og fleiri strandborgir og bæi í Flórída í rúst. Sjór hefur gengið langt upp á land yfir heimili og fyrirtæki og valdið miklum skemmdum, að sögn Ron DeSantis ríkisstjóra Flórída.

Þá hafa brýr sem tengja nálægar eyjar við Fort Myers skemmst og ekki verður hægt að komast yfir fyrr en að lokinni viðgerð.

Ian var skráður fjórða stigs fellibylur en hefur nú misst kraft og flokkast sem hitabeltisstormur. Fellibylurinn er einn sá öflugasti sem gengið hefur á land í Bandaríkjunum og flóðin sem fylgt hafa eiga sér varla hliðstæðu.

AFP/Giorgio Viera

Flóðin stafa af úrhellisrigningu og hárri sjávarstöðu. Vatnsmagnið hefur aukist jafnt og þétt og talið er að það muni halda áfram að aukast í dag þrátt fyrir að dragi úr krafti stormsins. 

„Ég held að við höfum aldrei áður séð flóð í líkingu við þetta,“ sagði DeSantis á blaðamannafundi í dag. „Við höfum aldrei áður sé storm koma af stað svo miklum flóðum,“ ítrekaði hann. Um væri að ræða atburð sem gerðist kannski á 500 ára fresti.

Festi eiginmanninn við rúmið með teppum

Renee Smith, íbúi í Punta Gorda, smábæjar á suðvesturströnd Flórída, segir í samtali við MSNBC fellibylinn hafa verið skelfilega upplifun. 

Hún annast minn sinn heima, en hann glímir við krabbamein og er lamaður fyrir neðan brjóst. Áður en hún gat komið sjálfri sér í öruggt skjól varð hún að tryggja öryggi hans, meðal annars með því að festa hann við rúmið með teppum. Þá límdi hún kodda og plastpoka fyrir glugga og við veggi hússins. Eiginmaðurinn var einnig settur í björgunarvesti til að koma í veg fyrir að hann drukknaði ef mikið vatn kæmi inn í húsið.

Sjálf útbjó hún virki úr koddum og teppum undir borði og faldi sig þar.

Smith upplifði einnig fellibylinn Charley sem gekk yfir sama svæði fyrir 18 árum, en hún segir Ian hafa verið miklu verri og varað mun lengur. Fellibylurinn reif meðal annars strompinn af húsi þeirra hjóna, en hún hafði varla þorað almennilega út til að skoða skemmdirnar.

AFP/Joe Raedle

Tvær milljónir heimila eru án rafmagns og er ástandið sérstaklega slæmt í Lee-sýslu þar sem Fort Myers er staðsett. Tilkynnt hefur verið um tvö dauðsföll af völdum fellibylsins en þau hafa þó ekki verið staðfest, að sögn ríkisstjórans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert