Þjóðverjar spari gas þrátt fyrir kulda

Brýn viðvörun hefur verið send til neytenda í Þýskalandi að …
Brýn viðvörun hefur verið send til neytenda í Þýskalandi að spara meira gas. AFP

Yfirstjórn orkumála í Þýskalandi hefur gefið út brýna viðvörun til neytenda um að spara meira gas þrátt fyrir kalt veður. Tölur yfir gasnotkun hafa sýnt að notkunin er yfir meðallagi þrátt fyrir að neytendur hafi ítrekað verið beðnir um að draga úr notkun.

„Án umtalsvert minni gasnotkunar, þar á meðal á heimilum, verður erfitt að forðast gasskort í vetur,“ sagði Klaus Mueller, forstjóri fjarskipta- og samgöngustofnunar Þýskalands. 

Áhrif innrásar Rússa í Úkraínu eru afar mikil og geta leitt til orkukreppu í Þýskalandi. Til þess að forðast skort á gasi þarf að draga úr notkun um 20 prósent í Þýskalandi.

„Það verður að spara gas, jafnvel þótt það kólni enn frekar í vetur. Þetta mun ráðast af hverjum og einum," sagði Mueller.

Vonovia, stærsta fasteignafélag landsins, hyggst takmarka hitastigið í 350.000 íbúðum við 17 gráður á nóttunni til þess að bregðast við stöðunni.

mbl.is