Ákærður fyrir að myrða níu ára stúlku

Frá vettvangi morðsins í ágúst.
Frá vettvangi morðsins í ágúst. AFP

Lögregla og saksóknarar í Bretlandi hafa ákært 34 ára mann fyrir að myrða níu ára stúlku á heimili hennar í Liverpool í ágúst.

Stúlkan, Olivia Pratt-Korbel, var skotin í bringuna þann 22. ágúst þegar ætlað skotmark árásarmannsins flúði undan honum og inn í hús hennar.

Hefur árásin verið tengd átökum glæpagengja í borginni.

Skók bresku þjóðina

Morðið á stúlkunni, sem var um leið þriðja banvæna skotárásin í borginni á innan við viku, skók bresku þjóðina og knúði áköll á frekari aðgerðir gegn skotvopnum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Thomas Cashman heitir maðurinn sem hefur verið ákærður fyrir morðið, „eftir viðamikla og flókna rannsókn“ að sögn lögreglu.

Hann hefur sömuleiðis verið ákærður fyrir morðtilraun gegn móður stúlkunnar, Cheryl Kobel, og innbrotsþjófnum Joseph Nee.

mbl.is