Knattspyrnuheimurinn í áfalli

Fyrir utan leikvanginn.
Fyrir utan leikvanginn. AFP/Putri

Knattspyrnuheimurinn er í áfalli eftir fregnir af harmleiknum á Kanjuruhan-leikvanginum í Indónesíu, að sögn Gianni Infantino, forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA).

„Þetta er dimmur dagur fyrir alla þá sem tengjast knattspyrnu og harmleikur umfram skilning. Ég votta fjölskyldu og vinum fórnarlambanna sem létust í slysinu mínar dýpstu samúðarkveðjur,“ sagði forsetinn. 

Að minnsta kosti 174 létust og 180 slösuðust þegar óeirðir brutust út og mikill troðningur skapaðist á Kanjuruhan-leikvanginum í Malang í Indónesíu í gær, skömmu eftir að dómari flautaði til leiksloka í leik Arema FC og Persebaya Surabaya

Óeirðir brutust út og mikill troðningur skapaðist að leikslokum.
Óeirðir brutust út og mikill troðningur skapaðist að leikslokum. AFP

Einnar mínútu þögn

Til að votta fórnarlömbunum virðingu verður einnar mínútu þögn í upphafi leikja í spænsku deildinni í dag.

„La Liga og Spæsnka knattspyrnusambandið hafa ákveðið að halda mínútu þögn til að votta íbúum Indónesíu samúð, sérstaklega fjölskyldu þeirra sem létust í harmleiknum á Kanjuruhan-leikvanginum á eyjunni Java,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu.

mbl.is