Minnst 174 létust í troðningi eftir fótboltaleik

Minnst 174 eru taldir hafa látið lífið.
Minnst 174 eru taldir hafa látið lífið. AFP

Að minnsta kosti 174 létu lífið og 180 slösuðust eftir fótboltaleik þegar að mikill troðningur skapaðist á yfirfullum leikvangi í borginni Malang í Indónesíu seint í gær. Talið er að áhorfendur hafi verið um 4.000 yfir leyfilegum hámarksfjölda þegar slysið gerðist.

Slysið er eitt það mannskæðasta í íþróttasögunni.

Hörmungarnar áttu sér stað skömmu eftir leikslok þegar að lögreglan beitti táragasi á stuðningsmenn sem höfðu hlaupið út á fótboltavöllinn. Ótti greip um sig og þúsundir reyndu að forða sér út um útganga Kanjuruhan-leikvangsins samtímis með skelfilegum afleiðingum.

Troðningurinn sem skapaðist varð svo mikill að fólk átti erfitt með að ná andanum og köfnuðu einhverjir.

Að minnsta kosti 174 eru taldir hafa látið lífi í æsingnum og eru 11 alvarlega slasaðir.

Öllum leikjum frestað

Joko Widodo, forseti Indónesíu, hefur krafist þess að öllum fótboltaleikjum í landinu verði frestað þar til rannsókn hefur átt sér stað á atvikinu.

Fjöldi leyfilegra áhorfenda á vellinum er 38.000 en talið er að þeir hafi verið í kringum 42.000 þegar atvikið átti sér stað.

mbl.is