Talið að forsetinn muni tapa

Bolsonaro greiddi atkvæði í treyju brasilíska landsliðsins í knattspyrnu í …
Bolsonaro greiddi atkvæði í treyju brasilíska landsliðsins í knattspyrnu í Rio de Janeiro í dag. AFP/Carl De Souza

Kosningaspár í Brasilíu gera ráð fyrir því að forseti landsins, hinn hægrisinnaði Jair Bolsonaro, muni tapa forsetakosningunum sem fara þar fram í dag. Talið er að hinn vinstri sinnaði Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti landsins, muni bera sigur úr býtum.

Lula gegndi embætti forseta frá árinu 2003-2010. Hefur hann lofað því að koma Brasilíu aftur í eðlilegt horf og segist vilja frið í landið.

Lula kyssti atkvæði sitt í dag.
Lula kyssti atkvæði sitt í dag. AFP/Nelson Almeida.

Hefur efast um lögmæti kosninganna

Bolsonaro hefur sagt að hann muni virða niðurstöðu kosninganna verði þær „óflekkaðar“, en forsetinn hefur efast um lögmæti þeirra. Er blaðamenn spurðu hvort hann myndi virða niðurstöðuna ef þannig færi að hann myndi ekki vinna, svaraði forsetinn engu.

Auk forsetakosninga er kosið til fulltrúa- og öldungadeildar þingsins. Þá fara einnig fram kosningar til fylkisþinga og fylkisstjóra í öllum fylkjum landsins. Mesta spennan er þó fyrir forsetakosningunum.

Brasilíumenn ganga til kosninga í dag.
Brasilíumenn ganga til kosninga í dag. AFP/Gregg Newton
mbl.is