71.000 krónur fyrir sætið

Kirkenes í Norður-Noregi, þangað streyma Rússar nú sem aldrei fyrr …
Kirkenes í Norður-Noregi, þangað streyma Rússar nú sem aldrei fyrr á flótta undan herkvaðningu Pútíns. Ljósmynd/Wikipedia.org/Janter

Rússneska leyniþjónustan FSB herðir nú eftirlit sitt með öllum mögulegum flóttaleiðum út úr Rússlandi eftir því sem vefmiðillinn The Barents Observer greinir frá. Ástæðan er uggur rússneskra stjórnvalda yfir stórfelldum flótta rússneskra karlmanna sem forðast vilja herkvaðningu Vladimírs Pútíns forseta.

„Sumir greiddu 500 evrur [71.000 íslenskar krónur] fyrir eitt sæti,“ segir ökumaður, sem ekki vill koma fram undir nafni en hefur ferjað þá sem vilja og greiða frá Murmansk til Kirkenes í Norður-Noregi, í samtali við Observer en norskir fjölmiðlar hafa einnig greint frá flótta rússneskra karlmanna yfir landamærin upp á síðkastið. Er þar greint frá allt að 1.000 evrum í fargjald.

Greinir skrifari Observer frá því að ökumenn sem fari milli Rússlands og Noregs, margir í löglegum atvinnuerindum við fólksflutninga, hafi aldrei upplifað önnur eins tilboð manna sem greiða vilja hvítuna úr augunum til að komast frá Rússlandi. Hefur Schengen-vegabréfsáritun að þeirra sögn hlotið viðurnefnið „gullni farmiðinn“.

Dmítrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, sagði fréttamönnum á mánudag fyrir rúmri viku að engin ákvörðun hefði verið tekin um lokun landamæranna þrátt fyrir að öll umferð um eina af stærri stöðvunum, í Storskog í Norður-Noregi, hefði skyndilega stöðvast á miðvikudaginn eins og greint er frá í tilvitnaðri frétt hér að ofan.

Á fimmta hundrað sama dag

Um miðja síðustu viku var hvert einasta gistirými í Kirkenes uppselt Rússum sem þar biðu eftir flugfari til Óslóar eða annarra staða í Evrópu, svo sem Tyrklands. Um svipað leyti höfðu raðir myndast við eftirlitsstöðvar á borð við Titovka í Rússlandi, sem er ekki landamærastöð en staðsett miðja vegu milli Murmansk og norsku landamæranna og sinnir eins konar foreftirliti væntanlegra farþega yfir til Noregs.

Þá greindi lögreglan í Kirkenes í síðustu viku frá því að á fimmta hundrað Rússa hefðu komið yfir landamærin til Noregs á mánudeginum sem er fáheyrður fjöldi. Eins báðu tólf Rússar um pólitískt hæli í Noregi á fimm daga tímabilinu 21. til 25. september sem að sögn norska utanríkisráðuneytisins er há tala miðað við meðaltal.

The Barents Observer ræddi við nokkra Rússa á flótta frá fósturlandi sínu og sögðust flestir vera á leið áfram til annarra staða, Noregur væri aðeins millilending. „Ég hef ekkert gott að segja um Pútín, það er allt sem ég hef að segja,“ sagði Nikita, 28 ára gamall, við vefmiðilinn, þar sem hann stóð í hópi annarra Rússa frá Pétursborg fyrir utan hótel í Kirkenes.

The Barents Observer

Aftenposten

AftenpostenII (umferðin eykst á ný)

Dagsavisen

mbl.is