Ákærður fyrir hagsmunaárekstra

Alexis Kohler er ákærður fyrir hagsmunaárekstra sem honum láðist að …
Alexis Kohler er ákærður fyrir hagsmunaárekstra sem honum láðist að greina frá tímanlega og snúa að skipafélaginu MSC. AFP/Ludovic Marin

Alexis Kohler, starfsmannastjóri Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, hefur verið ákærður fyrir hagsmunaárkestra hans er tengjast svissnesk-ítalska skipafélaginu MSC. Frá þessu greindi saksóknari efnahagsmála í Frakklandi í dag, eftir því sem fréttastofan AFP greinir frá.

Þannig er í pottinn búið að systkinabörn móður Kohlers, og þar með náfrændur hennar, koma að rekstri félagsins sem er umfangsmikill farmflytjandi. Frá þessu greindi Kohler ekki er hann tók við embætti á sínum tíma og kveður lögmaður hann hafa vísað öllum ásökunum á bug er honum var birt ákæra í dag.

Upphaflega voru það Anticor-samtökin, sem berjast gegn spillingu, er greindu frá tengslum Kohlers við MSC og bentu á að skipafélagið hefði náð samningum með fulltingi hans árin 2010 og '11.

Sem fyrr segir neitar Kohler sök en málið þykir hið vandræðalegasta fyrir Macron forseta því skammt er liðið síðan ljóst varð að dómsmálaráðherra stjórnar hans, Eric Dupond-Moretti, mun einnig þurfa að svara frönskum dómstólum fyrir hagsmunaárekstra við setu hans í embætti.

mbl.is