Þúsundir skráðar í herinn fyrir mistök

Ungir menn ganga framhjá skilti þar sem samlandar eru hvattir …
Ungir menn ganga framhjá skilti þar sem samlandar eru hvattir til þáttöku í rússneska hernum, í Pétursborg. AFP/Olga Maltseva

Skráningarstjóri hersins í austurhluta Rússlands hefur verið leystur frá störfum eftir að hafa kallað inn þúsundir manna í herinn, til þess að berjast í Úkraínu, fyrir mistök. 

„Skráningarstjórinn í Kabarovsk-héraði, Júrí Laíkó, hefur verið leystur frá störfum. Þetta mun þó ekki hafa nein áhrif á framfylgni þeirra verkefna sem forsetinn hefur sett okkur,“ segir í Telegram-skilaboðum frá héraðsstjóranum á svæðinu, Mikhaíl Degtíaríov. 

Fór hann ekki nánar yfir ástæður þess að skráningarstjórinn var látinn taka pokann sinn, en sagði þó að röð mistaka hafi átt sér stað í innköllunum. 

„Af nokkur þúsund samlöndum okkar sem hafa verið boðaðir á skráningarskrifstofur hersins undanfarna 10 daga, uppfyllti um helmingur þeirra ekki skilyrði fyrir herkvaðningu,“ segir héraðsstjórinn. 

„Herkvaðningin á einungis að ná til þeirra hópa sem samþykktir hafa verið af varnarmálaráðuneytinu og forsetanum. Hvers konar misbeitingu á henni verður að stöðva,“ sagði hann einnig. 

Vladimír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti um herkvaðningu á varaliði hersins 21. september, sem ná átti til 300 þúsund manna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert