Veiðigarpar grófir svindlarar

Úr myndskeiðinu sem farið hefur sem sinueldur um Twitter. Jason …
Úr myndskeiðinu sem farið hefur sem sinueldur um Twitter. Jason Fischer yfirdómari sker feng þeirra Runyan og Cominsky upp og sér hvers kyns er. Neðst til hægri á myndinni má sjá blýkúlurnar sem leyndust í kvið dýranna. Viðbrögð áhorfenda og samkeppenda voru óvægin. Skjáskot/Twitter

Viðsjár eru vaktar meðal bandarískra sportveiðimanna eftir að tveir þungavigtarmenn í stangveiðikeppnum, þeir Jake Runyan og Chase Cominsky, voru gripnir í landhelgi á móti í Cleveland í Ohio-ríki um helgina.

Lögðu þeir félagar fram væna og vel þunga fiska sem Bandaríkjamenn kalla walleye og er tegundin Sander vitreus á latínu, náfrændi vatnaviðnis eða gedduborra sem evrópska afbrigðið kallast. Íslensk þýðing óskast á þeim ameríska þekki lesendur til.

Ekki reyndist þó allt sem sýndist og hefur myndskeið á Twitter fengið tólf milljónir skoðana sem sýnir yfirdómara í keppninni þukla hina amerísku gedduborra, feng Runyan og Cominsky. Þóttu honum dýrin óvenjuhörð viðkomu og brá hníf á kvið þeirra. Út ultu þá blýkúlur sem veiðigarparnir höfðu troðið ofan í bráð sína til að þyngja dýrin og vinna til verðlaunanna í keppninni í Cleveland sem nema sem svarar milljónum íslenskra króna.

Unnu 44 milljónir í fyrra

„Hringið í lögregluna!“ heyrist áhorfandi hrópa þegar blýkúlurnar ultu út úr fiskunum og sjá má á myndskeiðinu hvernig nánast kom til handalögmála á veiðimótinu en Runyan og Cominsky eiga sér langa afrekaskrá, unnu til dæmis í keppnunum Blaster Walleye Fall Brawl og Walleye Slam í fyrra þaðan sem þeir höfðu með sér 306.000 dala verðlaunafé, jafnvirði 44,4 milljóna íslenskra króna.

Engar formlegar kærur hafa verið lagðar fram á hendur Runyan og Cominsky en mega þeir þó búast við að þurfa að endurgreiða mótshöldurum í Cleveland 100.000 dali. Sem fyrr segir hefur myndskeiðið á Twitter, sem mbl.is birtir hér að neðan, en varar sterklega við orðbragði þar, hlotið ríflega athygli auk þess sem New York Times hefur fjallað um atvikið og það enn fremur náð eyrum miðla svo fjarri sem í Noregi þar sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá því og ræðir við Daniel Tilrem, ritstjóra Fiskeavisen, sem segir málið sorglegt.

New York Times (læst áskriftargrein)

Sportstiger.com

NRKmbl.is