Átta farsakenndar frásagnir í nýrri bók um Trump

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, 27. október árið 2020.
Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, 27. október árið 2020. AFP/Brendan Smialowski

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, rak næstum Ivönku Trump dóttur sína og sturtaði skjölum oft niður í klósettið í forsetatíð sinni. 

Þetta kemur fram í nýrri bók blaðamannsins Maggie Haberman hjá New York Times, sem margir hafa beðið eftir. Bókin kom út í dag og fjallar BBC sérstaklega um átta atriði í henni. 

Bókin fylgir Trump eftir frá því að hann starfaði sem viðskiptamógúll í New York fram að lífi hans eftir forsetaembættið. Hún byggist á viðtölum við yfir 200 heimildarmenn, þeirra á meðal fyrrverandi aðstoðarmenn, og á nokkrum viðtölum við Trump sjálfan. 

Forsetinn fyrrverandi hefur brugðist ókvæða við útgáfu bókarinnar og hefur úthúðað rithöfundinum á samfélagsmiðlum. Hann segir bókina „uppfulla af skálduðum sögum og ekkert sannreynt.“

Atriðin átta sem fjallað er sérstaklega um í bókinni eru:

1. Trump ætlaði sér að reka Ivönku og Jared Kushner

Á fundi með starfsmannastjóra sínum, John Kelly, og þáverandi ráðgjafa, Don McGahn, var Trump samkvæmt heimildum bókarinnar næstum búinn að tísta um að dóttir hans og tengdasonur, sem bæði voru háttsettir ráðgjafar í Hvíta húsinu, væru að hætta störfum. 

Kelly stöðvaði hann og ráðlagði honum að ræða fyrst við Ivönku og Kushner. Hann ræddi aldrei við þau og störfuðu þau áfram fram að síðasta degi forsetatíðar Trump.

Þá kemur einnig fram í bókinni að Trump talaði verulega niður til tengdasonar síns og sagði hann einu sinni hljóma eins og barn, eftir að hafa hlýtt á ræðu sem hann hélt árið 2017. 

2. Trump vildi varpa sprengjum á Mexíkó

Haberman skrifar um að Trump hafi ítrekað velt því upp hvort að ekki væri hægt að varpa sprengjum á fíkniefnaverksmiðjur í Mexíkó – nokkuð sem að þáverandi varnarmálaráðherra Mark Esper, brá illa við.

Hugmyndin virðist hafa átt rætur sínar að rekja til samtals Trumps og Brett Giroirs, lýðheilsufulltrúa í stjórn hans. 

Giroir gekk inn á skrifstofu Trumps í einkennisbúningi, líkt og starf hans krefst, og sagði við Trump að stofur sem framleiða ólögleg fíkniefni í Mexíkó ætti að „gera að skotmarki“ til þess að stöðva flæði fíkniefna yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Trump misskildi stöðu Giroirs og taldi hann herforingja og sannfærðist um að varpa sprengjum á fíkniefnaframleiðendur. Stjórnendur í Hvíta húsinu óskuðu eftir því að Giroir klæddist ekki einkennisbúningi eftir það.

3. Trump óttaðist að deyja úr Covid-19

Þegar Trump veiktist af Covid-19 í október árið 2020, tók það verulega á heilsu hans og óttaðist hann dauðann. 

Til þess kom að aðstoðarstarfsmannastjóri hans varaði við því að ef að heilsu hans hrakaði enn frekar þyrfti að hrinda af stað áætlunum til að tryggja samfellda stjórn alríkisins.

Ótti hans er talinn kaldhæðnislegur þar sem Trump lagði áherslu á að gera eins lítið úr áhrifum faraldursins og hann gat. Hann óttaðist einnig áhrif faraldursins og smitsins á ímynd sína og bað starfsfólk í kringum sig ítrekað um að taka niður andlitsgrímur. 

4. Trump minntist á eigur sínar í Bretlandi á forsætisráðherrafundi

Farið er yfir ýmis samskipti Trumps og annarra þjóðarleiðtoga í bók Habermans. Á fyrsta fundi sínum með Theresu May, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, sagði Trump um þungunarrof: 

„Sumt fólk styður réttinn til lífs, sumt fólk styður réttinn til sjálfsákvörðunar. Ímyndaðu þér að eitthvert dýr með húðflúr myndi nauðga dóttur minni og hún yrði ólétt?“

Skipti hann svo um umræðuefni og snéri sér að Norður-Írlandi og vildi ræða hvernig hægt væri að koma i veg fyrir vindmyllugarða sem rísa áttu nærri fasteignum hans. 

5. Trump sagði Giuliani að „gera hvað sem er“ til að snúa úrslitunum árið 2020

Þegar ljóst varð að Trump hefði tapað forsetakosningunum árið 2020 fyrir Joe Biden hringdi hann í fyrrverandi borgarstjóra New York og einkalögmann sinn, Rudy Giuliani.

„Ókei, Rudy, þú ert við stýrið. Gerðu hvað sem þú vilt. Mér er sama,“ sagði Trump við hann eftir að aðrir lögmenn neituðu að ganga eins langt og Trump ætlaðist til, til þess að snúa úrslitum kosninganna. 

„Lögmennirnir mínir eru hræðilegir,“ sagði hann samkvæmt bókinni. Þá gerði hann ítrekað lítið úr Pat Cipollone, yfirlögmanni Hvíta hússins.

Í bókinni kemur fram að á þessum tíma hafi Trump verið uppfullur af samsæriskenningum og leitaði til lögmanna sem ráðgjafar hans töldu raunveruleikafirrta.

6. Trump skáldaði afsökun fyrir skattaskýrsluleysi áreynslulaust

Á flugi á meðan kosningabaráttu stóð árið 2016, óskuðu kosningastjórinn Corey Lewandowski og fjölmiðlafulltrúinn Hope Hicks eftir því að Trump myndi ræða það að hann neitaði að birta skattaskýrslur sínar – nokkuð sem þau litu á sem vandamál fyrir framboðið.

Haberman skrifar að Trump hafi svarað bóninni með því að halla sér aftur en reisti sig skyndilega við með hugmynd: 

„Skattarnir mínir eru í skoðun hjá skattayfirvöldum. Ég er alltaf skoðaður,“ sagði hann. 

„Þannig að ég gæti bara sagt að ég birti þær þegar skoðun þeirra er lokið. Ég verð aldrei ekki í skoðun.“

Frá tímum Richards Nixons hafa allir forsetar Bandaríkjanna birt skattaskýrslur sínar af fúsum og frjálsum vilja. Árið 2020 var greint frá því í New York Times að Trump hefði greitt alls 750 bandaríkjadali í tekjuskatt árið sem hann varð forseti. Það samsvarar um 108 þúsund krónum á gengi dagsins í dag. 

7. Trump sturtaði skjölum niður í klósettið í Hvíta húsinu 

Þegar Trump var forseti þurfti starfsfólk Hvíta hússins oft að eiga við stíflað klósett vegna útprentaðs pappírs. Talið er að Trump hafi ítrekað reynt að sturta niður hinum ýmsu skjölum.

Þá er talið að hann hafi tætt skjöl, sem er á skjön við lög um starfsemi forseta. Þar segir að skjöl sem skrifuð eru af eða fyrir forsetann og hann fær á sitt borð séu eign alríkisins sem koma skuli í skjalageymslur þess að forsetatíð hvers forseta lokinni.

8. Trump taldi starfsfólk af öðru litarhafti vera þjóna

Á þingfundi, skömmu eftir að Trump tók við sem forseti árið 2017, skrifar Haberman að Trump hafi snúið sér að hópi starfsfólks demókrata sem var af fjölbreyttum kynþáttum, og beðið þau um að sækja snittur – þar sem hann taldi þau vera þjóna.

Þá segir í bókinni að starfsfólkið hafi verið aðstoðarmenn þingmannsins Chuck Schumers og þingforsetans Nancy Pelosi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert