Bregðast við eldflaugaskoti N-Kóreu með sameiginlegri heræfingu

Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem norðurkóreskri …
Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem norðurkóreskri eldflaug er skotið yfir Japan. AFP

Japanskar og bandarískar herþotur héldu í dag sameiginlega heræfingu sem svar við eldflaugaskoti Norður-Kóreu í gær. Talsmaður japanska hersins greindi frá því að átta japanskar herþotur og fjórar bandarískar vélar hafi tekið þátt í æfingunni í Kyushu-héraði. 

Fram kemur í yfirlýsingu japanska herráðsins að ákveðið hafi verið að halda sameiginlega heræfingu á svæðinu þar sem staða öryggismála í nágrenni við Japan verði sífellt óstöðugra, m.a. vegna eldflaugaskots Norður-Kóreumanna, en flaugin fór yfir Japan áður en hún hafnaði í hafinu.

Með æfingunni hafi Japan og Bandaríkin staðfest viðbragð þeirra og sýnt fram á getu ríkjanna, bæði í Japan og gagnvart alþjóðasamfélaginu, til að bregðast við hvaða áskorun sem er.  

Tilkynning hersins var birt skömmu eftir að Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, átti fund með aðmírálnum John Aquilino, sem stýrir Indó-Kyrrahafssveitum Bandaríkjahers. 

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, hyggst ræða símleiðis við Biden Bandaríkjaforseta.
Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, hyggst ræða símleiðis við Biden Bandaríkjaforseta. AFP

„Við grípum til aðgerða þegar í stað,“ sagði Kishida á fréttamannafundi. Hann bætti við að japönsk og bandarísk stjórnvöld hafi ákveðið að halda sameiginlega æfingu, án þess að veita frekari upplýsingar. Forsætisráðherrann sagði enn fremur að hann myndi ræða símleiðis við Joe Biden Bandaríkjaforseta. 

Eldflaugaskot Norður-Kóreu í gær var það fyrsta í fimm ár þar sem norðurkóreskri eldflaug er skotið yfir Japan. Þarlend yfirvöld brugðust við með því að virkja viðvörunarbjöllur í nokkrum héruðum Japans, þar sem almenningur er hvattur til að leita skjóls. 

Sem fyrr segir, þá hafnaði flaugin í hafinu án þess að valda eyðileggingu eða manntjóni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert