Lukka eða lævís leikur?

Framkvæmdastjóri lottósins segir að það sé ekki hægt að svindla …
Framkvæmdastjóri lottósins segir að það sé ekki hægt að svindla og að landsmenn eigi það til að vera mjög hliðhollir sínum tölum. Ljósmynd/Colourbox

Það vakti mikla athygli þegar 433 einstaklingar á Filippseyjum gerðust svo lukkulegir að vera með allar tölurnar rétt í lottóútdrætti nýverið. Margir stórefast um að þarna hafi allt verið með felldu og farið hefur verið fram á formlega rannsókn. 

Aldrei hafa jafnmargir fengið fyrsta vinning í Stóra lottóinu um liðna helgi, en aðalvinningurinn var 236 millijónir filippeyskra pesóa, sem samsvarar um 580 milljónum kr. 

Þingmaðurinn Koko Pimental, sem er leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir að þetta sé afar grunsamlegt og hefur kallað eftir formlegri rannsókn, að því er breska útvarpið greinir frá.  

Melquiades Robles, framkvæmdastjóri góðgerðarstofnunar sem heldur utan um lottóið, sagði á sunnudag að það væri ekki hægt að svindla og láta fyrir fram ákveðnar tölur birtast. Hann benti einnig á að landsmenn eigi það til að veðja á ákveðnar talnaraðir í hvert sinn. 

„Margir hafa haldið fast í sínar tölur. Það er ekki einvörðungu gott að vera trúr eiginkonu og eiginmanni, heldur einnig að vera trúr og hliðhollur þínum tölum,“ sagði Robles á blaðamannafundi. 

mbl.is