Gætu hafa lagt sprengjurnar á síðasta ári

Horft yfir Eystrasaltið og hvar gaslekinn kemur upp á yfirborðið …
Horft yfir Eystrasaltið og hvar gaslekinn kemur upp á yfirborðið skammt frá Borgundarhólmi. AFP

Rússnesk stjórnvöld gætu hafa komið sprengjum fyrir á Nord Stream-gasleiðslunum þegar lokið var við lagningu þeirra á síðasta ári.

Þetta segir Andrí Kobóljev, sem stýrði úkraínska ríkisorkufyrirtækinu Naftogaz fram til síðasta árs.

Rússneski gasrisinn Gazprom kom með eigin skip til að ljúka vinnunni við síðasta hluta leiðslunnar, skammt undan Borgundarhólmi, eftir að efnahagsþvinganir Bandaríkjanna neyddu svissneskan verktaka til að draga sig út úr verkefninu.

Sprengingarnar sem urðu við leiðslurnar í síðustu viku, og rifu göt á að minnsta kosti þrjár af þeim fjórum leiðslum sem tilheyra Nord Stream 1 og 2, áttu sér stað á sama svæði.

Tíðkaðist á tímum Sovétríkjanna

Grunsemdir vöknuðu um leið, þess efnis að Rússar hefðu komið þar fyrir sprengjum nokkru áður.

En Kobóljev segir í samtali við breska blaðið Telegraph að sprengjurnar gætu hafa verið lagðar við gasleiðslurnar löngu fyrr, í eins konar baktryggingarskyni.

Bendir hann á að tíðkast hafi á tímum Sovíetríkjanna að koma sprengjum fyrir við mikilvæga innviði, ef ske kynni að óvinur næði að taka þá yfir í stríði.

Næmir skynjarar

Allar gas- og olíuleiðslur séu búnar mjög næmum skynjurum sem venjulega nema allar truflanir eða afskipti, þegar leiðslan er komin í gagnið. 

„Meira að segja í Úkraínu höfum við slíka skynjara. Gazprom, með öllum sínum peningum, mun hafa komið fyrir enn næmari skynjurum við Nord Stream 2,“ segir hann.

Fyrirtækið geti þá hafa skákað í skjóli framkvæmdanna á síðasta ári og komið fyrir sprengjum við leiðslurnar.

mbl.is