Heita því að ná landsvæðinu til baka

Úkraínskir hermenn veifa fánanum eftir að hafa endurheimt Líman.
Úkraínskir hermenn veifa fánanum eftir að hafa endurheimt Líman. AFP/Anatolí Stepanóv

Stjórnvöld í Rússlandi hafa heitið því að vinna aftur landsvæðin sem Úkraínumenn hafa endurheimt og tilheyra úkraínsku héruðunum sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti telur sig hafa innlimað.

„Landsvæðin verða tekin til baka,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar og bætti við að héruðin „yrðu rússnesk að eilífu og verða ekki gefin til baka“.

Hafa endurheimt nokkurt landsvæði

Gagn­sókn Úkraínu­manna hef­ur gengið von­um fram­ar á ýms­um svæðum í Úkraínu og hef­ur þeim tek­ist að end­ur­heimta nokk­urt landsvæði sem Rúss­ar höfðu her­numið.

Yfir helgina náði úkraínski herinn bænum Líman í Dónetsk-héraðinu úr höndum rússneska hersins en hann hefur verið á valdi Rússa frá því í vor.

Dónetsk er eitt fjögurra héraða sem Pútín kveðst hafa innlimað í síðustu viku. Stjórnvöld í Evrópu hafa fordæmt innlimunina og sagt hana ólögmæta. Fram kom í morgun að Pútín hefði undirritað löggjöf um innlimunina.

„Héruðin Dó­netsk, Lúg­ansk, Ker­son og Saorisjía eru „viður­kennd sem hluti af Rússlandi í sam­ræmi við rúss­nesku stjórn­ar­skrána,“ seg­ir í skjöl­um sem birt hafa verið af rússnesku ríkisstjórninni.

mbl.is