Pólland býðst til að hýsa kjarnavopn

Andrzej Duda, forseti Póllands.
Andrzej Duda, forseti Póllands. AFP

Andrzej Duda, forseti Póllands, sagði í samtali við dagblað í Póllandi í dag að Pólland hefði rætt við Bandaríkin um möguleikann á því að hýsa kjarnavopn bandaríska hersins.

Þetta kemur fram á vef Bloomberg.

Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið (NATO) hafa tilkynnt að þau hafi ekki í hyggju að koma fyrir kjarnavopnum í ríkjum sem gengu í bandalagið eftir fall Sovétríkjanna. Aðspurður vildi embættismaður Hvíta hússins ekki kannast við málið og vísaði spurningum um málið alfarið til stjórnvalda Póllands.

Vandamál að vera ekki með kjarnavopn

„Vandamálið er fyrst og fremst að við erum ekki með kjarnavopn. Það er alltaf möguleiki að deila kjarnavopnum,“ sagði Duda í viðtali við dagblaðið Gazeta Polska sem var birt í dag. 

Með því að deila kjarnavopnum er Duda að öllum líkindum að vísa til þess að Pólland geti hýst kjarnavopn bandaríska hersins en Þýskaland, Belgía, Holland, Ítalía og Tyrkland hýsa nú þegar kjarnavopn frá Bandaríkjunum.

„Við höfum talað við bandaríska leiðtoga um hvort þau séu að íhuga þann möguleika,“ sagði Duda í samtali við áðurnefnt dagblað.

Duda tók ekki fram við hvern innan bandaríska stjórnkerfisins hann hefði rætt við um möguleikann á því að Pólland geymdi kjarnavopn. 

mbl.is