Svíar hafna fregnum af lofthelgisbroti Rússa

Rússnesk orrustuþota af gerðinni Su-34.
Rússnesk orrustuþota af gerðinni Su-34. AFP

Yfirvöld í Svíþjóð neita því að fjórar rússneskar herþotur hafi rofið sænska lofthelgi fyrr í dag.

Ítalski flugherinn greindi frá því í tísti að herþoturnar hefðu rofið pólska og síðan sænska lofthelgi. 

Bætti hann um betur og kvaðst hafa rekið þoturnar aftur inn í loftrými Kalíníngrad, svæðis undir stjórn Rússa sem liggur á milli Póllands og Litháens.

Yfir alþjóðlegu hafsvæði

Í svari við fyrirspurn Aftonbladet segir sænski herinn aftur á móti að ekkert rof hafi orðið á flughelgi landsins í dag.

„Þær voru yfir alþjóðlegu hafsvæði,“ segir í svarinu.

Sú var þó ekki raunin fyrr á árinu, þegar rússneskar þotur flugu inn fyrir sænska lofthelgi með kjarnaodda um borð.

mbl.is