Tæp 50% vilja Frederiksen áfram

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til kosninga og var …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til kosninga og var nauðbeygð til enda hefðu þingmenn De Radikale lagt fram vantrauststillögu á stjórnina á morgun ellegar. AFP

Þingkosningar í Danmörku sem Mette Frederiksen forsætisráðherra hefur boðað til 1. nóvember eru samkvæmt vilja meirihluta þingmanna danska þingsins en hefði forsætisráðherra ekki boðað til kosninganna hefði stjórn hennar sætt vantrauststillögu frá De Radikale sem lögð hefði verið fram á morgun.

Á blaðamannafundi í dag sagði Frederiksen tímana erfiða, stríð í Evrópu og mikla efnahagslega óvissu ríkjandi, meðal annars vegna mikilla verðhækkana á flestum nauðsynjavörum. Mikilvægasta verkefnið sagði hún vera að stýra landinu örugglega gegnum öldudalinn.

Minkamálið vomir yfir ráðherra

Minkamálið svokallaða, slátrun milljóna minka um alla Danmörku vegna nýs afbrigðis kórónuveirunnar, hefur verið Frederiksen erfiður ljár í þúfu, ekki síst eftir að ítarleg skýrsla minkanefndarinnar svokölluðu leit dagsins ljós en engin lagaheimild reyndist vera fyrir aðgerðinni sem olli minkabændum þungum búsifjum. Þá komst nefndin að þeirri niðurstöðu að háttsemi embættismanna forsætisráðuneytis og matvælaráðuneytis hefði verið ámælisverð.

Nýjustu skoðanakannanir spá „rauðu blokkinni“ svokölluðu, vinstriflokkum þingsins með Sósíaldemókrataflokk Frederiksen í broddi fylkingar, samanlögðu fylgi á bilinu 47 til 50 prósent, en „bláu blokk“ hægriflokkanna 49 til 50 prósentum.

Samkvæmt könnun á óskum almennings um forsætisráðherra vilja 49,4 prósent Frederiksen áfram á meðan  27,4 prósent kjósa Søren Pape Poulsen, leiðtoga Íhaldsflokksins, og 23,3 prósent Jakob Ellemann-Jensen, formann Venstre.

DR

DRII (flokksleiðtogar klárir í baráttuna)

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert