Baðst aftur afsökunar á að hafa orðið 80 að bana

Myndbrot úr myndskeið eftirlitsmyndavélar sýnir hvernig lestin fór út af …
Myndbrot úr myndskeið eftirlitsmyndavélar sýnir hvernig lestin fór út af sporinu á fullri ferð í beygju 24. júlí 2013. AFP

Lestarstjóri sem olli mannskæðu lestarslysi á Spáni árið 2013 hefur aftur beðið ættingja þeirra sem létust afsökunar á því sem gerðist. Alls létust 80 í slysinu. Réttarhöld í máli lestarstjórans standa nú yfir í borginni Santiago de Compostela á Spáni. 

Slysið varð þann 14. júlí fyrir 9 árum. Rannsókn leiddi í ljós að lestin ók á 179 km hraða á klukkustund í beygju, sem var rúmlega tvöfalt yfir leyfilegum hámarkshraða. Þetta varð til þess að lestin fór út af sporinu. Sem fyrr segir biðu 80 manns bana og 145 slösuðust í einu versta lestarslysi Spánar frá árinu 1944. 

Rannsakendur segja að ástæðu slyssins megi rekja til aðgæsluleysis lestarstjórans, Franciscos Garzons, sem lauk símtali skömmu áður en lestin fór út af. 

Garzon hélt því aftur á móti fram að skortur á viðvörunarskiltum ætti þátt í því að hann gerði sér ekki grein fyrir því að beygja væri fram undan og hann hefði því ekki dregið úr hraðanum. 

„Ekkert umferðarljós, engin ljós, ekki neitt,“ sagði hann. 

AFP

Ákæruvaldið fer fram á að Garzon verði dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Einnig er farið fram á sömu refsingu yfir fyrrverandi eftirlitsmanni ríkislestarfélagsins ADIF, sem átti að hafa yfirumsjón með öryggismálum. 

Báðir mennirnir eru sakaðir um manndráp af gáleysi.

Garzon hafði áður beðið hlutaðeigandi afsökunar í bréfi sem hann birti þegar eitt ár var liðið frá slysinu. Garzon kvaðst upplifa „djúpa sorg og sársauka“.

Alls munu 669 vitni gefa skýrslu fyrir dómi, en þau munu standa yfir fram til 10. febrúar á næsta ári. 

mbl.is