Bæjarstjóri á meðal 18 sem voru myrtir

Mexíkóska lögreglan að störfum.
Mexíkóska lögreglan að störfum. AFP/Jesus Guerrero

Byssumenn í suðurhluta Mexíkó drápu að minnsta kosti 18 manns á bæjarskrifstofu í bænum San Miguel Totolaplan í ríkinu Guerrero í gær. Á meðal þeirra sem lést var bæjarstjórinn Conrado Mendoza.

Að sögn saksóknarans Söndru Luz Valdovinos særðust tveir í árásinni. „Eins og staðan er núna er staðfest að 18 létust,“ sagði Valdovinos við sjónvarpsstöð.

Engar fregnir hafa borist af ástæðunni að baki árásinni mannskæðu. Hún var framin af genginu Los Tequileros um hábjartan dag. Gengið tengist öflugum eiturlyfjahring sem nefnist Jalicso Nueva Generacion.

Um 4.300 manns búa í San Miguel Totolaplan. Bærinn er á svæði í Guerrero sem er þekkt fyrir ofbeldisfull átök á milli eiturlyfjahringja.

Síðan stjórnvöld í Mexíkó ákváðu að nota hermenn til að berjast við eiturlyfjahringa árið 2006 hafa yfir 340 þúsund dauðsföll orðið sem eru að mestu sögð tengjast gengjum og eiturlyfjasölu.

mbl.is