Djöfladýrkunarbarnaníðshringur reyndist uppspuni

Smábærinn Bodegraven-Reeuwijk er hinn huggulegasti en engu að síður spratt …
Smábærinn Bodegraven-Reeuwijk er hinn huggulegasti en engu að síður spratt dómsmál af sögum þriggja manna um að þar hafi djöfladýrkendur níðst á börnum á níunda áratug liðinnar aldar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Vincent van Zeijst

Hollenski bærinn Bodegraven-Reeuwijk hefur tapað dómsmáli sínu gegn Twitter þar sem stjórnendur þessa 35.000 íbúa smábæjar kröfðust þess að samfélagsmiðlinum yrði gert að fjarlægja úr sínum véum allar frásagnir af því að í bænum hafi djöfladýrkunarbarnaníðshringur stundað skuggalega iðju sína á níunda áratug síðustu aldar.

Sagði dómari við héraðsdómstól í Haag í dómsorði sínu að Twitter hefði nægt að fjarlægja efni sem teldist ólöglegt í tengslum við málið. Eru sögurnar af djöfladýrkendunum í Bodegraven-Reeuwijk runnar undan rifjum þriggja manna.

Reyndar sitja þremenningarnir allir í fangelsi þótt fyrir aðrar athafnir sé, en þeir hlutu dóma fyrir hvatningu til afbrota auk þess að hóta forsætisráðherranum Mark Rutte lífláti og fyrrverandi heilbrigðisráðherranum Hugo de Jonge.

Samsæriskenningafólk flykkist í kirkjugarðinn

Einn mannanna hangir á því eins og hundur á roði að hann hafi sem barn orðið vitni að morðum í bænum sem þó er ekki vitað til að hafi verið framin. Það sem einna mest fer fyrir brjóstið á bæjarbúum er straumur áhugafólks um samsæriskenningar til bæjarins en þeir hafa flykkst í kirkjugarðinn þar, lagt blóm á grafir barna auk þess að skilja eftir skrifleg skilaboð á gröfunum. Hafa foreldrar barnanna látnu brugðist ókvæða við þessu enda andlát afkvæmanna alls ótengd djöfladýrkendum í bænum.

Dómarinn í Haag brást bæjarbúum þó ekki algjörlega. Kvaðst hann ekki geta dæmt Twitter til að fjarlægja efnið en fyrirtækið skyldi þó bregðast við óskum bæjaryfirvalda um að fjarlægja efni tengt málinu sem yfirvöldin tilgreindu nákvæmlega í hverju tilfelli fyrir sig. Hafa Twitter-menn borið hönd fyrir höfuð sér og bent á að þeim reyndist ómögulegt að smíða síu sem fjarlægði sumt, en ekki annað efni, sem fjallaði um Bodegraven-Reeuwijk.

AD.nl (á hollensku)

BBC

Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert