„Ekkert vit“ segir Biden

Joe Biden náðaði í dag mörg þúsund manns í Bandaríkjunum …
Joe Biden náðaði í dag mörg þúsund manns í Bandaríkjunum sem hlotið hafa dóma fyrir einfalda handhöfn, eða „simple possession“, marijúana og kvað tímabært að endurskoða flokkun efnisins í fyrsta flokk bandarískrar fíkniefnalöggjafar þar sem efni á borð við heróín, LSD og MDMA eru skráð. AFP/Manden Ngan

Joe Biden Bandaríkjaforseti náðaði í dag þúsundir marijúananeytenda sem hlotið hafa dóma fyrir handhöfn efnisins með þeim orðum að „ekkert vit“ væri í núverandi kerfi hvað marijúana snerti.

Tekur forsetinn með þessu rækilega U-beygju í hinu títtnefnda stríði gegn fíkniefnum, eða að minnsta kosti drjúgum hluta þess, sem Harry Anslinger, yfirmaður fíkniefnaskrifstofu Bandaríkjanna, The Federal Bureau of Narcotics, hóf árið 1930.

Eingöngu „einföld handhöfn“

Náðanir Bidens ná þó eingöngu til þeirra sem ákærðir hafa verið eftir bókstaf alríkislaga í Bandaríkjunum, en einnig í Washington, og fyrir það sem kallast einföld handhöfn marijúana, eða „simple marijuana possession“, það er að segja þegar sýnt þykir að efnið sé ætlað til eigin neyslu, ekki sölu.

Hvatti forsetinn ríkisstjóra um gervöll Bandaríkin til að fylgja fordæmi hans og beindi því til Xavier Becerra, ráðherra heilbrigðis- og almannaþjónustumála, og Merrick Garland ríkissaksóknara að hefja endurskoðun á flokkun marijúana í fíkniefnalöggjöfinni.

„Rétt eins og að enginn ætti að sitja í alríkisfangelsi eingöngu vegna þess að hafa haft marijúana undir höndum ætti enginn heldur að sitja í fangelsum einstakra ríkja eða borga af sömu ástæðu,“ sagði Biden í yfirlýsingu í dag.

Nær náðun forsetans til rúmlega 6.500 manns með alríkisdóma samkvæmt tölum sem Hvíta húsið gaf út í dag, en við þá tölu megi þó bæta þúsundum þegar dómfelldir í Washington eru taldir með. Nær náðunin ekki til þeirra sem staddir voru ólöglega í Bandaríkjunum þegar handtaka átti sér stað.

Sagði of mörgum lífum umturnað

Við fréttirnar ruku hlutabréf kannabisframleiðendanna Tilray Brands og Canopy Growth upp um 25 og 20 prósent.

Í ávarpi sínu benti forsetinn enn fremur á að marijúana væri í fyrsta flokki bandarískrar fíkniefnalöggjafar, Schedule I, sem eru fíkniefni sem ekki hafa læknisfræðilegt notagildi og bjóða upp á sérstaka hættu á misnotkun. Eru þar til dæmis heróín, LSD og MDMA. „Þetta er ekkert vit,“ sagði Biden.

„Of mörgum mannslífum hefur verið umturnað vegna rangrar nálgunar okkar við marijúana. Nú er tímabært að bæta fyrir þetta órétti,“ sagði hann enn fremur.

New York Times

Los Angeles Times

CNBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert