Gríðarleg úrkoma í Sydney

Eins og segir í kvæðinu: „Nú er úti veður vott …
Eins og segir í kvæðinu: „Nú er úti veður vott verður allt að klessu, ekki fær hann Grímur gott að gifta sig í þessu.“ AFP

Aldrei hefur mælst jafnmikil úrkoma í borginni Sydney í Ástralíu á einu ári, og enn eru 86 dagar til áramóta. 

Það sem af er þessu ári hefur úrkoman í Sydney, sem er stærsta borg landsins, mælst 2.200 mm að sögn áströlsku veðurstofunnar. 

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins að yfir 20 hafi látist af völdum mikilla flóða í Ástralíu á þessu ári, en úrkoman kemur í kjölfar veðurfyrirbærisins La Niña. 

Íbúar Syndey hafa verið varaðir við hættu á flóðum og þurfa að búa sig undir annað votviðrasamt sumar. Þegar það er vetur á norðurhveli jarðar þá er sumar á þeim syðri. 

„Við höfum séð gríðarlega úrkomu í Sydney í dag, en þetta á bara eftir að verða verra,“ segir Steph Cooke, sem er ráðherra neyðar- og viðbúnaðarmála, í New South Wales. 

Fyrra úrkomumetið er frá árinu 1950 en þá mældist árleg úrkoma 2.194 mm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert