Norðmenn vilja efla varnir vegna ágangs Rússa

Norskur þjóðvarðliði sést hér standa vörð við Karst-gasvinnslustöðina í Rogalandi …
Norskur þjóðvarðliði sést hér standa vörð við Karst-gasvinnslustöðina í Rogalandi fyrr í vikunni. AFP

Norsk stjórnvöld hafa lagt til að framlög til varnarmála verði hækkuð um 10% á næsta ári vegna innrásar Rússa í Úkraínu. 

Norðmenn, sem eiga landamæri að Rússlandi sem teygja sig alls 198 km, hyggjast nota aukin framlög til að efla starfsemi leyniþjónustu hersins, bæta á skotafærabirgðir og efla norska þjóðvarðliðið. 

Norska ríkisstjórnin leggur til að verja 75,8 milljörðum norskra króna, sem jafngildir um 1.000 milljörðum kr., í varnarmál. Það er aukning sem nemur um 90 milljörðum kr. á ársgrundvelli.

Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, segir að innrás Rússa í Úkraínu ógni öryggi Noregs og Evrópu. 

„Nú þegar hefur stríðið haft meiriháttar afleiðingar á sviði öryggismála, stjórnmála, efnahagsmála og mannúðarmála,“ sagði Gram. 

Þá stendur til að nota hluta fjárins til að skipta út búnaði sem Norðmenn hafa þegar gefið úkraínskum stjórnvöldum auk þess sem stefnt er að því að styðja Úkraínu áfram með búnaði og framlögum á næsta ári. 

Nú þegar hafa norsk stjórnvöld sent Úkraínumönnum ýmiskonar búnað, tól og tæki, m.a. 22 langdrægar hábyssur (e. howitzer).

Þar sem stjórnin er minnihlustastjórn þá þarf hún að fá stuðning annarra flokka á þingi eigi frumvarpið að hljóta brautargengi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert