Assange veikur í fangelsi

AFP/Niklas Hallen

Stofnandi Wikileaks, Julian Assange, hefur greinst jákvæður af kórónuveirunni. Stella Assange, eiginkona hans, greindi frá þessu í dag, en hún hefur verið að berjast gegn framsali hans til Bandaríkjanna.

Hún segir að Assange hafi verið slappur alla síðustu viku en orðið veikur á föstudaginn. „Hann hóstaði mikið og var með hita,“ en Assange greindist með veiruna á laugardag.

Þúsundir manna héldust í hendur og bjuggu þannig til keðju í kringum þinghúsið í Lundúnum á laugardaginn til að krefjast þess að Assange yrði látinn laus úr Belmarsh-fangelsinu.

Stuðningsmenn Julian Assange héldust í hendur og mynduðu þannig keðju …
Stuðningsmenn Julian Assange héldust í hendur og mynduðu þannig keðju í kringum þinghúsið í Lundúnum á laugardaginn. AFP/Niklas Hallen

Assange, sem er nú orðinn 51 árs, hefur verið í haldi í fangelsinu síðan 2019. Hann sótti um að vera veitt frelsi árið 2020 vegna hættu á að smitast af kórónuveirunni í fangelsinu. Lögfræðingar hans sögðu þá að Assange hefði sögu af veikindum, þar á meðal sýkingar í öndunarfærum.

Stella, sem giftist Assange í Belmarsh-fangelsinu í marsmánuði og er móðir tveggja ungra sona þeirra, sagði að hún hefði áhyggjur af heilsufari Assange.

„Næstu dagar munu skipta sköpum fyrir almenna heilsu hans. Núna er hann lokaður inni í klefa 24 tíma á sólarhring,“ sagði hún.

Árið 2010 var Assange dæmdur í fangelsi fyrir að brjóta reglur um reynslulausn í Bretlandi þegar hann sótti um pólitískt hæli í sendiráði Ekvador í Lundúnum til að komast hjá því að verða framseldur til Svíþjóðar vegna nauðgunarákæru. Ákæran í Svíþjóð var látin niður falla árið 2019. Sama ár missti Assange hælisleitendastöðu sína í Ekvador eftir stjórnarskipti í landinu og var hann þá handtekinn og fangelsaður í Belmarsh-fangelsinu.

Í ágúst hófu lögfræðingar Assange málarekstur gegn bandarísku leyniþjónustunni, CIA, fyrir meintar hleranir á einkasamtölum Assange.

Mál Assange stendur nú þannig að hann hefur áfrýjað niðurskurði breskra stjórnvalda um að framselja hann til Bandaríkjanna fyrir að hafa sagt frá bandarískum herleyndarmálum tengdum stríðunum í Írak og Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert