Rússar hafi skotið 75 flugskeytum að Úkraínu

Stjórnvöld í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, segja Rússa hafa skotið að minnsta kosti 75 flugskeytum að landinu í morgun.

Fimm manns, hið minnsta, eru látnir í Kænugarði og um tugur særður eftir árásirnar, að sögn úkraínsku lögreglunnar. Auk Kænugarðs var skotið á borgir í suður- og vesturhluta landsins.

Meðal annars var skotið á leikvöll í Kænugarði, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.  

„Óvinurinn efndi til mikillar flugskeytaárásar á Kænugarð. Flest flugskeytin lentu í miðri höfuðborginni. Eins og staðan er núna eru 12 særðir. Fimm manns létust,“ sagði lögreglan í tilkynningu á Facebook.

„Hryðjuverkaríkið Rússland gerði miklar flugskeyta- og loftárásir á Úkraínu, einnig með því að nota dróna. Í morgun skaut árásaraðilinn 75 flugskeytum á loft. 41 þeirra var skotið niður af loftvarnakerfi okkar,“ sagði hershöfðinginn Valerí Saluzhní á samfélagsmiðlum.

Íranskir drónar notaðir

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að árásirnar hafi beinst að innviðum landsins í orkumálum. Hann segir að íranskir drónar hafi verið notaðir við árásirnar.

„Þessi morgunn hefur verið erfiður. Við eigum í höggi við hryðjuverkamenn. Tugir flugskeyta og íranskir drónar. Þeir eru með tvö skotmörk. Miðstöðvar orku víðsvegar um landið ... Þeir vilja að hræðsla grípi um sig og ringulreið, þeir vilja eyðileggja orkukerfin okkar,“ sagði Selenskí í myndbandsávarpi á samfélagsmiðlum. Hann bætti við að „hitt skotmarkið þeirra er fólk“.

Skjáskot úr myndskeiði sem sýnir ónýt faratæki og viðbragðsaðila að …
Skjáskot úr myndskeiði sem sýnir ónýt faratæki og viðbragðsaðila að störfum í Kænugarði eftir árásirnar í morgun. AFP/Arman Soldin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert