Fleiri eldflaugavarnarkerfi til Úkraínu

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP//Kenzo Tribouillard

Um fimmtíu þjóðir, leiddar af Bandaríkjamönnum, hétu því á fundi í höfuðstöðvum NATO í Brussel, höfuðborg Belgíu, að útvega stjórnvöldum í Úkraínu fleiri eldflaugavarnarkerfi.

Stutt er síðan Rússar skutu fjölmörgum flugskeytum á hinar ýmsu borgir í Úkraínu.

„Við munum útvega kerfin eins fljótt og við mögulega getum,“ sagði Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að loknum fundinum.

Volodimír Selenskí.
Volodimír Selenskí. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sem hefur lýst flugskeytaárásum Rússa sem hryðjuverkum, fagnaði væntanlegum eldflaugavarnarkerfum.

„Eftir því sem Rússar verða grimmari er enn augljósara að aðstoð heimsins við að vernda himininn yfir Úkraínu er eitt mikilvægasta verkefni Evrópu í dag,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu.

Innlimun fordæmd

Á fundi G7-ríkjanna var samþykkt að „standa með Úkraínu eins lengi og þörf krefur“. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti jafnframt í gær að fordæma ákvörðun Rússa um að innlima úkraínsk landsvæði.

Ályktunin var samþykkt með 143 atkvæðum gegn fimm. 35 þjóðir sátu hjá, þar á meðal Kína, Indland, Suður-Afríka og Pakistan, þrátt fyrir að Bandaríkin hafi lagt áherslu á að aðgerðir Rússa yrðu fordæmdar á sem breiðustum grundvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert