Bræður í 40 ára fangelsi fyrir morð á blaðakonu

Daphne Caruana Galizia lést eftir að sprengju var komið fyrir …
Daphne Caruana Galizia lést eftir að sprengju var komið fyrir í bíl hennar. AFP

Bræðurnir George og Alfred Degiorgio hafa verið dæmdir í 40 ára fangelsi fyrir morðið á maltnesku blaðakonunni Daphne Caruana Galizia árið 2017. Þeir viðurkenndu að hafa myrt Galizia, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hafa neitað sök.

Galiza lést í október 2017 eftir að sprengju var komið fyrir í bíl hennar.

Í fyrra voru tveir karlmenn ákærðir fyrir að útvega sprengjuna, að því er BBC greinir frá. Sá þriðji, Vincent Muscat, var dæmdur í 15 ára fangelsi í febrúar í fyrra fyrir að hafa komið sprengjunni fyrir í bílnum.

Dómur Muscat þótti mildur miðað við alvarleika glæpsins en rök dómara voru þau að hann hefði verið samvinnuþýður við rannsókn lögreglu.

Talinn hafa fyrirskipað morðið

Maðurinn sem er sakaður um að hafa fyrirskipað morðið, maltneski kaupsýslumaðurinn Yorgen Fenech, bíður enn réttarhalda, en hann neitar allri sök.

Galizia, sem var 53 ára þegar hún lést, var þekktust fyrir rannsóknarblaðamennsku sína þar sem hún varpaði ljósi á spillingu í stjórnkerfi og viðskiptalífi Möltu. Morðið á henni vakti óhug um allan heim á sínum tíma, en marga grunar að það hafi verið fyrirskipað af æðstu embættismönnum landsins.

Robert Abela, forsætisráðherra Möltu, sagði dóminn vera mikilvægt skref í átt að réttlæti fyrir fjölskyldu Galizia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert