Boðar skattahækkanir

Jeremy Hunt við Dowiningstræti 10 í gær.
Jeremy Hunt við Dowiningstræti 10 í gær. AFP/Isabel Infantes

Erfiðar ákvarðanir verða teknar „þvert á sviðið“ um skattamál og ríkisútgjöld samkvæmt Jeremy Hunt, nýjum fjármálaráðherra Bretlands.

Hunt sagði í samtali við BBC að hækka þurfi suma skatta og draga þurfi úr ýmsum ríkisútgjöldum. Þetta er þvert á þá stefnu sem Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað og var kjörin formaður Íhaldsflokksins út á. 

Hann segir að boðuð lækkun á hátekjuskatti án fjármögnunar hafi verið mistök sem nú sé verið að leiðrétta. 

Þá sagði hann að hann hæfi störf með hreinan skjöld eftir að Truss lét Kwasi Kwarteng gossa úr ríkisstjórn sinni í gær. Áður var Jeremy Hunt utanríkisráðherra Bretlands, en var ekki í upphaflegum ráðherrahópi í ríkisstjórn Truss. 

Falla frá frosti

Samkvæmt fréttaflutningi breska ríkisútvarpsins hefur Truss einnig fallið frá áformum sínum um að frysta skatta á fyrirtæki, sem kynnt var 23. september í fjáraukalögum, sem er önnur stór U-beygja frá boðuðum áformum. 

Í viðtalinu gefur Hunt í skyn að snúið verði alfarið frá þeirri hugmyndafræði sem Truss og Kwarteng höfðu áður talað fyrir. 

„Skattar munu ekki lækka í þeim mæli sem fólk hefur vonast eftir, sumir skattar munu hækka,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert