Fjórir Rússar í varðhaldi eftir myndatökur í Noregi

Bærinn Mosjøen í Nordland-fylki. Þar voru Rússarnir fjórir handteknir á …
Bærinn Mosjøen í Nordland-fylki. Þar voru Rússarnir fjórir handteknir á þriðjudaginn. Ljósmynd/Wikipedia.org/Breadbasket

Þrír karlmenn og ein kona af rússnesku bergi brotin, sem nú sitja í gæsluvarðhaldi í Nordland-fylki í Noregi, segjast ekki hafa hugmynd um hvað þau gerðu af sér, þau hafi aðeins verið að taka myndir af norðurljósum.

Fólkið var handtekið þegar lögregla stöðvaði bifreið þess á þriðjudag í síðustu viku í Mosjøen í Nordland. Áður hafði sést til fólksins mynda byggingu eða stað sem ljósmyndabann hvílir á, eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu lögreglu.

Við leit í bifreið Rússanna fannst mikill búnaður til ljósmyndunar og leiddi efnisinnihald í ljós töluvert myndefni sem lögregla fer nú yfir.

Það voru ábendingar frá almenningi sem komu lögreglunni á sporið og leiddu til þess að för fjórmenninganna var stöðvuð hefur norska ríkisútvarpið eftir Gaute Rydmark, ákæruvaldsfulltrúa lögregluumdæmisins. Hefur lögreglan í Mosjøen beiðst fulltingis lögregluembætta í Bodø í Nordland auk Óslóar.

Venjulegir ferðamenn

Norsku öryggislögreglunni PST er kunnugt um málið að sögn Martin Berntsen upplýsingafulltrúa þar á bæ. Verjandi konunnar í rússneska hópnum, Christian Wulff Hansen, segir skjólstæðinginn ekki átta sig á meintu broti.

„Hún segist ekki hafa gert neitt af sér. Hún tók myndir, en ekki af neinu sem ljósmyndabann hvílir á – að minnsta kosti ekki svo henni væri kunnugt um. Hún hefur er hugmynd um hvað málið snýst. Hún segir að þau séu bara venjulegir ferðamenn […] Ég get ekki tjáð mig um nein sönnunargögn í málinu, aðeins það sem umbjóðandi minn hefur sagt mér,“ segir Hansen.

Fólkið var leitt fyrir héraðsdómara eftir handtöku og úrskurðað í einna viku gæsluvarðhald vegna gruns um brot gegn 1. málsgrein 6. greinar norsku upplýsingalaganna þar sem bann er lagt við því að hafa „gert upptöku eða á annan hátt notað upplýsingar sem snúast um ákveðna hluti sem leynd hvílir yfir [n. skjermingsverdige objekter] eða athafnir sem fram fara í nágrenni við slíka hluti.

Hvetur Norðmenn til að vera á varðbergi

Norskum fjölmiðlum er ekki kunnugt um hvað Rússarnir eru grunaðir um að hafa myndað en 30 kílómetra norður af Mosjøen er Drevjamoen-herstöðin þar sem norski herinn rekur umfangsmikla birgðastjórnunarstarfsemi í samvinnu við heimavarnalið Suður-Hálogalands.

Emilie Enger Mehl, dómsmála- og viðbúnaðarráðherra, hvatti Norðmenn á blaðamannafundi í dag til að vera á varðbergi og tilkynna lögreglu um alla ískyggilega háttsemi. „Það skiptir mig og ríkisstjórnina öllu máli að geta greint frá því að í Noregi vinnur fjöldi fólks að öryggismálum. Þótt mörg mál komi upp höfum við góða yfirsýn,“ sagði ráðherra.

Norskir fjölmiðlar hafa undanfarið greint frá fjölda tilfella þar sem talið er að um rússneska njósnastarfsemi sé að ræða, má þar nefna myndatökur, drónaflug og dularfullt rússneskt skip, Akademik B. Petrov, sem lítur út fyrir að vera hafrannsóknarskip fyrir utan þann umfangsmikla fjarskiptabúnað sem greina mátti á því. Var skip þetta á sveimi við norska olíuvinnslupalla í lok september eins og mbl.is greindi frá.

NRK

NRKII (Rússi handtekinn í Tromsø)

TV2

Helgelands Blad (læst áskriftarsíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert