Brottflutningur íbúa frá Kerson sagður hafinn

Borgin er staðsett í suðurhluta Úkraínu við Dnípró ána.
Borgin er staðsett í suðurhluta Úkraínu við Dnípró ána. AFP/Andrei Boródúlín

Aðgerðir við að flytja á brott almenna borgara frá borginni Kerson í Úkraínu eru hafnar, samkvæmt upplýsingum frá embættismönnum í héraðinu sem eru hliðhollir Rússum.

Borgin er í suðurhluta Úkraínu við Dnípró-ána. Í myndskeiði sem birt var á rússnesku sjónvarpsstöðinni Russia 24 má sjá íbúa bíða í röðum eftir því að vera fluttir yfir ána í ferju.

Yfirvöld í borginni, sem Rússar skipuðu, áforma að flytja á bilinu 50 til 60 þúsund yfir ána en áætlað er að brottflutningurinn taki um sex daga. Talið er að flytja eigi íbúana til Rússlands.

Ker­son var fyrsta stór­borg­in til að falla í hend­ur Rússa snemma í stríðinu og er Ker­son-héraðið jafn­framt eitt þeirra fjög­urra héraða sem rúss­nesk stjórn­völd inn­limuðu ólög­lega í síðasta mánuði.

Gagnárás her­sveit­a Úkraínu­ hefur þó gengið vel og hafa þær end­ur­heimt landsvæði í grennd við borg­ina á síðustu vik­um.

Segja úkraínska herinn skipuleggja árás á borgina

Yfirmenn í rússneska hernum hafa sagt ástandið í Kerson erfitt og að úkraínski herinn væri að undirbúa árás á borgina.

Rússneski miðillinn RIA Novosti greindi frá því að íbúar hefðu fengið sms þar sem þeir voru hvattir til að rýma áður en úkraínski herinn myndi hefja sprengjuárásir.

mbl.is