Lýsir yfir herlögum í innlimuðum héruðum

Vladimír Pútín í morgun.
Vladimír Pútín í morgun. AFP/Sergei Ilyin

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur lýst yfir herlögum í úkraínsku héruðunum Dónetsk, Lúgansk, Kerson og Saporisjía sem Rússar segjast hafa innlimað.

„Ég hef undirritað herlög í þessum fjórum hlutum rússneska ríkisins,“ sagði Pútín á fundi þjóðaröryggisráðs.

Tilkynning Pútíns kemur á sama tíma og úkraínskar hersveitir hafa sótt hratt fram á svæðum þar sem Rússar hafa verið með yfirráð.

„Stjórnvöld í Kænugarði neita að viðurkenna vilja fólksins og hafna öllum tillögum um samningaviðræður. Bardagar halda áfram og almennir borgarar deyja,“ sagði Pútín og sakaði Úkraínu um að beita „hryðjuverkaaðferðum“.

„Þeir senda hópa til að skemma fyrir á okkar landsvæði,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert