Grunaður njósnari með góðan húmor

Maðurinn sem handtekinn var í Tromsø í gær þykir hvers …
Maðurinn sem handtekinn var í Tromsø í gær þykir hvers manns hugljúfi og kom að sögn samstarfsfólks við háskólann þar með góð meðmæli frá háskóla í Kanada. Öryggislögreglan PST telur hann rússneskan njósnara. Ljósmynd/Úr einkasafni

Maður á fertugsaldri, sem kveðst vera brasilískur ríkisborgari og handtekinn var í Tromsø í Noregi í gær, mánudag, grunaður um njósnir, ber af sér sakir að sögn lögmanns hans. Eru skýringar mannsins á þá leið að hann hafi komið til Noregs til að starfa sem sjálfboðaliði við Háskólann í Tromsø.

Þar starfar hann vissulega og ber samstarfsfólk honum vel söguna. „Hann hefur mikla aðlögunarhæfni og mjög góðan húmor,“ segir Marcela Douglas, forstöðumaður friðarrannsóknarseturs háskólans, sem verið hefur lærimeistari, eða mentor, þess brasilíska síðan hann hóf störf.

Kveður hún hann hafa lýst ánægju sinni með kuldann og snjóinn í Norður-Noregi og sagst kunna því ástandi mun betur en hitanum í Brasilíu. Starf mannsins felst í rannsóknum á norðurslóðum með áherslu á svæðið umhverfis Barentshaf en hann er með BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Centre for Military, Security and Strategic Studies í Calgary í Kanada.

Látist vera venjulegir borgarar

Er nafn hans nefnt á Facebook-síðu kanadíska skólans í umfjöllun um námsframboð þar. Kveðst hann einnig hafa verið að leggja á ráðin um meistaranám þar en norska ríkisútvarpið NRK hefur ekki fengið það staðfest hjá skólanum.

Öryggislögreglan PST telur manninn villa á sér heimildir, hann sé einfaldlega ekki sá er hann segist vera. Þess í stað sé hann svokallaður „illegalist“ en slíkt kallast þeir sem búa sér til auðkenni, eða persónu, sem venjulegir borgarar en starfa í raun á laun fyrir erlendar leyniþjónustur.

Gunhild Hoogensen Gjørv, prófessor í öryggisfræðum við skólann í Tromsø, segir að maðurinn hafi komið þangað í krafti meðmæla frá kanadíska skólanum. „Þar var honum hrósað í hástert,“ segir hún.

PST telur hins vegar að maðurinn sé í raun rússneskur ríkisborgari við njósnir fyrir þarlend stjórnvöld. Honum hefur verið útvegaður lögmaður, Thomas Hansen, en er þó ekki í eiginlegu gæsluvarðhaldi. Er hann vistaður í Trandum-búðunum, fyrrverandi herbúðum þar sem útlendingadeild norsku lögreglunnar hefur nú aðstöðu þar sem fólk, sem vísa skal úr landi, er vistað.

NRK

NRKII (handtakan)

Aftenposten (kom til skólans á styrk)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert